Meirihluti Letta vill ekki evruna

AFP

Meirihluti Letta er andvígur upptöku evrunnar eða 60% samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar samkvæmt frétt AFP en evran verður formlega gjaldmiðill Lettlands 1. janúar næstkomandi.

Sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla fór ekki fram um upptöku evrunnar í landinu en meirihluti Letta samþykkti hins vegar inngöngu í Evrópusambandið fyrir tæpum áratug en í því fólst meðal annars skuldbinding til þess að taka upp evru þegar efnahagsleg skilyrði þess hefðu verið uppfyllt.

Stjórnvöld í Lettlandi hafa lagt mikla áherslu á að uppfylla skilyrðin sem meðal annars hafa falið í sér að tryggja að gengi latsins, gjaldmiðli landsins, væri haldið innan ákveðinna vikmarka frá gengi evrunnar. Það hefur meðal annars haft í för með sér miklar launalækkanir þar sem ekki hefur verið hægt að fella gengi gjaldmiðilsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert