Einstæð og atvinnulaus bresk móðir tók lán hjá átta smálánafyrirtækjum fyrir jólin og keypti jólagjafir handa börnum sínum tveimur. Hún segist hafa viljað gera jólin sérstök þar sem amma barnanna lést fyrr á árinu. Hún þarf að greiða fyrirtækjunum til baka 2. janúar næstkomandi og veit ekki hvernig.
Konan, Katie McGill, fékk 1.700 pund að láni frá fyrirtækjunum átta, eða jafnvirði 325 þúsund íslenskra króna. Hún þarf hins vegar að greiða 3.000 pund til baka, eða jafnvirði um 572 þúsund króna, og það strax eftir áramót. McGill, sem er 28 ára og ræddi við breska götublaðið Daily Mail, óttast að geta ekki séð fyrir börnum sínum þurfi hún að greiða lánin til baka.
Meðal þess sem hún gaf börnunum, þriggja og átta ára, í jólagjöf var sjónvarp, DVD-spilari, leikjatölva og leikir auk þess sem bæði fengu reiðhjól. Hún skellir skuldinni á smálánafyrirtækin. „Þegar ég byrja að borga til baka mun ég ekki eiga fyrir reikningum, matvörum eða öðrum nauðsynjum. Þá verð ég líklega að taka fleiri lán og þetta verður að vítahring.“