„Glæpamaður? Já. Morðingi? Sannarlega. Slátrari? Vissulega. En hann stóð keikur fram á hinstu stundu,“ segir maðurinn sem hafði umsjón með aftöku einræðisherrans Saddams Hussein, aðfaranótt 30. desember 2006. Reipið sem Saddam var hengdur með geymir hann á skrifstofu sinni, um hálsinn á styttu af Saddam.
Mowaffak al-Rubaie er fyrrverandi ráðgjafi ríkisstjórnar Íraks í öryggismálum. Hann bar hitann og þungan af aftöku Saddams Hussein í lok desember fyrir 7 árum og segir, í einkaviðtali við AFP, að einræðisherrann hafi ekki sýnt vott af iðrun eða eftirsjá.
„Ég tók á móti honum í dyrunum. Enginn fór inn í herbergið með okkur - engir útlendingar, engir Bandaríkjamenn,“ sagði Rubaie við blaðamann, á skrifstofu sinni í Kadhimiyah norður af Baghdad, nærri fangelsinu þar sem Saddam endaði líf sitt.
Á skrifstofunni er stytta af Saddam Hussein og um háls hennar er reipi með snöru. Sömu snöru og notuð var um háls einræðisherrans. Aftökustjórinn hirti hana.
„Hann var klæddur í jakka og hvíta skyrtu, virkaði eðlilegur og afslappaður, og sýndi engin merki um ótta,“ segir Rubaie. „Auðvitað myndu sumir vilja heyra mig segja að hann hefði ekki staðið í lappirnar, eða verið lyfjaður, en þetta eru staðreyndirnar sem fara í sögubækurnar.“
„Ég heyrði enga iðrun frá honum, ég heyrði hann ekki biðja um miskunn frá guði, eða náðun. Fólk sem er komið fram á dauðastundina segir yfirleitt: „Guð fyrirgefðu mér syndir mínar, ég kem til þín,“ en hann sagði ekkert í þá veru,“ segir Rubaie.
Saddam Hussein var einræðisherra í Írak í rúma tvo áratugi. Hann var hengdur eftir að hafa verið fundinn sekur um glæpi gegn mannkyni vegna fjöldamorða á 148 sjítamúslímum í þorpinu Dujail árið 1982.
Hann var forseti landsins frá júlí 1979 og þar til í mars 2003 þegar Bandaríkjamenn leiddu innrás í Írak þar sem honum var steypt af stóli. Hann fannst í felum ofan í holu á sveitabýli í desember það sama ár. Þremur árum síðar var hann tekinn af lífi.
Enn eru Írakar sem hugsa með eftirsjá til þess tíma þegar Saddam réð lögum og lofum, ekki síst til langvarandi tímabila stöðugleika undir hans stjórn. Frá því honum var steypt af stóli hefur ríkt langvarandi óöld stríðsátaka og ofbeldis.
Saddam var einnig í miklum metum hjá sumum Aröbum, vegna stríðsreksturs hans gegn Íran á 9. áratugnum, andstöðu hans gegn Bandaríkjunum, árása gegn Ísrael og fyrir það hve hann hélt höfðinu hátt við aftökuna, en farsímaupptaka af hengingunni rataði fljótlega á netið.
„Þegar ég sótti hann var hann handjárnaður og hélt á Kóraninum,“ sagði Rubiae í viðtali við AFP. „Ég fór með hann í herbergi dómarans þar sem ákæruatriðin gegn honum voru lesin yfir og Saddam endurtók í sífellu: „Dauði yfir Ameríku! Dauði yfir Ísrael! Lengi lifi Palestína! Dauði yfir persnesku villutrúarmönnunum!“
Þegar Saddam var leiddur í herbergið þar sem hann var drepinn nam hann staðar og virti gálgann fyrir sér. Hann var bundinn á fótum og þurfti því að draga hann upp þrepin. Þegar verið var að setja snöruna um háls hans hæddust böðlarnir að honum og hrópuðu að honum ókvæðisorð.
Saddam spurði þá: „Er þetta manndómur?“
Rubiae togaði fyrstur í stöngina til að kippa pallinum undan Saddam, en það virkaði ekki. Annar böðull togaði þá í annað sinn og þá virkaði hún. Rétt áður en hann var hengdur byrjaði Saddam að þylja trúarjátningu múslíma:
„Það er enginn guð nema Guð og Múhameð er...,“ byrjaði hann en náði ekki að ljúka við hana með orðunum „...spámaður Guðs“.
Lík Saddams var losað niður, sett í hvítan poka og flutt í bandarískri herþyrlu úr fangelsinu að heimili forsætisráðherrans, Nuri al-Maliki. Þyrlan var full af fólki svo líkið var sett á gólfið og reyndust líkbörurnar of langar til að hægt væri að loka dyrunum á fluginu.
„Ég man það svo vel að sólin byrjaði að rísa þegar við flugum yfir Bagdad,“ sagði Rubaie.
Forsætisráðherrann tók í hendurnar á öllum við komuna og bað guð að blessa þá. „Ég sagði honum að líta á hann, svo hann tók duluna af andlitinu á honum og sá Saddam Hussein,“ sagði Rubaie.
Sjálfur segist hann aldrei hafa upplifað jafn sérkennilegar tilfinningar og þá nótt sem aftakan fór fram, en Rubaie var í þrígang hnepptur í fangelsi í valdatíð Saddams.
„Hann framdi óteljandi glæpi og átti skilið að vera hengdur þúsund sinnum, lifa aftur og vera svo hengdur aftur. En þessi tilfinning... þetta er skrýtin tilfinning,“ sagði hann. „Herbergið var mettað af dauða.“
Rubaie segir að aftökunni hafi verið hrundið í framkvæmd eftir fjarfund milli Maliki og þáverandi Bandaríkjaforseta, George Bush, sem spurði íraska forsætisráðherrann:
„Hvað ætlið þið að gera við þennan glæpamann?“
Maliki svaraði: „Við hengjum hann.“
Bush setti þumlana á loft til samþykkis, og Saddam var hengdur.