Rússnesk yfirvöld segja að það hafi verið 26 ára gömul kona sem sprengdi sjálfa sig í loft upp í lestarstöðinni í Volgograd í dag, sem varð til þess að minnst 16 létu lífið. Konur standa í auknum mæli bak við hryðjuverk í Rússlandi. Frá aldamótum hafa minnst 50 „svartar ekkjur“ fórnað lífi sínu til slíkra verka.
Konan er sögð hafa sprengt sprengjuna eftir að hafa verið stöðvuð af lögreglu í málmleitarhliði við innganginn. Lestarstöðin var full af fólki á ferðalagi fyrir áramótin.
Stjórnvöld hafa áhyggjur af því að skæruliðarhópar muni grípa til aukins ofbeldis eftir því sem nær dregur Vetrarólympíuleikunum í Sochi, en þeir hefjast eftir 6 vikur.
Rætur svörtu ekknanna liggja í hinu stríðshrjáða sjálfstjórnarlýðveldi Tsjetsjeníu, að sögn Julie Wilhelmsen, sérfræðings í málefnum Norður-Kákasus hjá NUPI-rannsóknarstofnuninni í Ósló.
Tvö blóðug stríð hafa geisað í Tsjetsjeníu eftir fall Sovétríkjanna, hið fyrra á árunum 1994 til 1996 og hið síðara 1999 til 2003.
„Þegar síðara stríðið hófst var það kallað aðgerðir gegn hryðjuverkum, en það var í rauninni stríð. Sprengjum var varpað á stór svæði, pyntingar voru útbreiddar sem og aftökur án dóms og laga. Þar ríkti harðstjórn. Það var erfitt fyrir tsjetsjenska karlmenn að komast út af svæðinu, svo lausnin var að fá konur í sjálfsmorðssprengjuárásir því þeim var hleypt í gegnum öryggishliðin,“ segir Wilhelmsen í samtali við Aftenposten.
Svipað mynstur hefur einnig sést í rússneska lýðveldinu Dagestan, þar sem ýmsar skæruliðahreyfingar beita sömu meðulum.
Wilhelmsen segir að konurnar séu knúnar af reiði vegna alls þess sem þær hafa átt og misst í stríðunum. Margar þeirra séu viljugar til að gerast sjálfsmorðssprengjumenn. Þær hafi margs að hefna og litlu að tapa.
Á meðan stríðsherrar Tsjetsjeníu láta lítið fyrir sér fara hafa konurnar reynst gagnlegir útsendarar í baráttunni gegn yfirvaldi Rússlands. Wilhelmsen segir að fátækar konur hafi líka verið misnotaðar, en þó ekki í sama mæli og rússnesk yfirvöld vilja vera láta.
„Áróðursútgáfan er sú að þetta séu uppdópaðar konur sem hafi verið þvingaðar til verksins. En það gefur ranga mynd af raunveruleikanum. Þetta er stríð upp á líf og dauða,“ segir Wilhelmsen.
Fyrstu hryðjuverkin sem „svörtu ekkjurnar“ tóku þátt í voru framin í Tsjetsjeníu, en þær færðu út kvíarnar þegar rúmlega 800 manns voru tekin gíslingu í Dubrovka-leikhúsinu í Moskvu 2002. Þá skipuðu 19 svartar ekkjur - með sprengjubelti undir svörtum kuflinum - sér í sveit með 22 körlum og tóku húsið á sitt vald.
Rússneskar sérsveitir felldu alla hryðjuverkamennina eftir 57 klukkustunda umsátur með því að dæla sterku gasi inn í húsið. 129 gíslar týndu lífi í aðgerðunum.
Þá má nefna gíslatöku í grunnskóla í Beslan í Norður-Ossetíu árið 2004. Tvær konur tóku þátt í skipulagningunni en voru drepnar af eigin liðsmönnum þegar þær mótmæltu því að gíslarnir yrðu teknir í grunnskóla. Alls létu 334 lífið í þeim hryðjuverkum, þar af 180 börn.
Þá létu yfir 40 manns lífið þegar tvær ungar stúlkur frá Dagestan gerðu sjálfsmorðssprengjuárás í neðanjarðarlestarkerfi Moskvu. Í október í haust sprengdi svo ung kona sjálfa sig í loft upp í strætisvagni í Volgograd, og drap 6 farþega í leiðinni.
Óttinn við frekari hryðjuverk er mjög mikill í Rússlandi núna, vegna Ólympíuleikanna framundan. Nokkrir skæruliðahópar á Kákasussvæðinu hafa hótað því að láta til skarar skríða gegn leikunum.
Markmið þeirra er að stofna íslamskt ríki í Norður-Kákasus. Leiðtogi þeirra, Doku Umarov, hefur kallað eftir því að árásum verði beint gegn almennum borgurum og reynt eftir öllum leiðum að koma í veg fyrir að Ólympíuleikarnir verði haldnir.
Borgin Volgograd, þar sem hryðjuverkin voru framin í morgun, er um 120 km frá verðandi Ólympíuborginni Sochi. Vladimir Pútín hefur lýst því yfir að allt verði gert til að tryggja öryggi íþróttamanna og áhorfenda á leikunum. Öryggisgæsla í landinu öllu verður aukin verulega, ekki síst á lestarstöðvum og flugvöllum.