Flygildi fylgjast með öllu í Sochi

Gríðarleg öryggisgæsla verður í Sochi í Rússlandi þar sem vetrarólympíuleikar hefjast eftir sex vikur. Enginn fær að koma inn í borgina án öryggispassa og yfir borginni fljúga flygildi sem mynda allt sem fram fer. Samt óttast menn að íslömsk hryðjuverkasamtök frá Kákasus reyni að vekja athygli á málsstað sínum með hryðjuverkum í tengslum við leikana.

Í gær létust 17 þegar sprengja sprakk á lestarstöð í rússnesku borginni Volgograd. Í  morgun létust 14 til viðbótar þegar sprengja sprakk í strætisvagni í borginni.

Vetrarólympíuleikar Pútíns

Rússar hafa varið gríðarlegum fjármunum í undirbúa vetrarólympíuleikana í Sochi. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur mikinn áhuga á leikunum og ætlar greinilega að nota þá til að undirstrika stöðu sína sem þjóðarleiðtogi og um leið Rússlands sem stærsta lands heims. Það er ekki tilviljun að stuttu áður en vetrarólympíuleikarnir hefjast fara rússneskir geimfarar í geimgöngu frá Alþjóðlegu geimstöðinni og rússneskur ísbrjótur er sendur að Norðurpólnum. Pútín vill minna heiminn á stöðu og styrk Rússlands.

Það verður því meiriháttar áfall fyrir Pútín ef hryðjuverkamönnum tekst að varpa skugga á vetrarólympíuleikana sem eiga að hefjast 7. febrúar í borginni Sochi við Svartahaf. Það er ekki langt frá Sochi til Norður-Kákasus þar sem íslamsistar vilja stofna sjálfstætt ríki. Þeir hafa í gegnum árin sýnt að þeir eru tilbúnir að beita alls kyns ofbeldi til að ná þessu markmiði. Árið 2004 tóku þeir um 1.100 manns í gíslingu í barnaskóla í borginni Beslan í Rússlandi. Yfir 380 létu lífið í árásinni. Tveimur árum áður tóku hryðjuverkamenn um 850 gísla í leikhúsi í Moskvu. Um 130 gíslar féllu í árásinni og um 40 hryðjuverkamenn.

Gríðarleg öryggisgæsla í Sochi

Til að bregðast við hættu á hryðjuverkum í Sochi hefur borgin og umhverfi hennar verið gert að sérstöku öryggissvæði. Enginn fær að fara inn í borgina nema með sérstökum öryggispassa sem þýðir að þeir sem halda utan um öryggismál eru með ítarlegar upplýsingar um hvern einasta sem er á svæðinu. Engum nýjum bílum verður hleypt inn í borgina meðan leikarnir standa yfir. Hraðbátar gæta strandarinnar við Svartahafið. Lögreglan notast við um 5.000 öryggismyndavélar í borginni til að fylgjast með öllu sem gerist. Um 600 byggingar eru með stöðu þar sem gæta á sérstaks öryggis. Sérsveitir hersins hafa komið sér fyrir í hæðunum austan við Sochi. Þá munu sérstök flygildi fljúga yfir borginni allan sólarhringinn, en í þeim eru myndavélar sem geta tekið myndir af númeraplötum grunsamlegra bíla og einnig af andlitum fólks sem lögreglan telur ástæðu til að fylgjast með.

Það er hins vegar ljóst að rússneskir hryðjuverkamenn þurfa ekki að láta til skarar skríða í Sochi til að ná athygli heimsbyggðarinnar. Hryðjuverk hvar sem er í Rússlandi mun valda skelfingu og varpa skugga á ólympíuleikana, ekki síst ef þau verða að umfangi eins og hryðjuverkin í Beslan árið 2004 og í leikhúsinu í Moskvu árið 2002. Pútín hefur aldrei tekið á hryðjuverkamönnum með neinum silkihönskum, enda hafa margir íbúar í Kákasus-lýðveldunum megnustu skömm á honum. Íslamskir hryðjuverkamenn vilja gjarnan skemma vetrarólympíuleikana fyrir Pútín.

Í morgun létust 14þegar sprengja sprakk í strætisvagni í borginni …
Í morgun létust 14þegar sprengja sprakk í strætisvagni í borginni Volgograd. AFP
Vladimir Pútín, forseti Rússlands.
Vladimir Pútín, forseti Rússlands. AFP
Myndin er tekin af lestarstöðinni í Volgograd í þann mund …
Myndin er tekin af lestarstöðinni í Volgograd í þann mund sem sprengjan sprakk. Sautján létust í sprengingunni og margir særðust. VASILY MAXIMOV
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert