Handleggir hans kipptust til

Þjóðverjar og áhugamenn um Formúlu 1-kappaksturinn eru slegnir eftir fréttir sem borist hafa af þýska ökuþórnum Michael Schumacher síðasta sólarhringinn. Hann hlaut alvarlega höfuðáverka er hann féll á skíðum í Meribel í Frakklandi í gær og var hann fluttur í skyndi með þyrlu á sjúkrahús.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagðist í dag vera í miklu áfalli vegna slyssins. Að sögn lækna á sjúkrahúsinu í Grenoble í Frakklandi, þar sem Schumacher er haldið sofandi, berst hann nú fyrir lífi sínu. Schumacher hefur hampað heimsmeistaratitli sjö sinnum í Formúlu 1-kappakstrinum.

Sagðist Merkel vera slegin, líkt og milljónir annarra Þjóðverja. „Við vonum, ásamt Michael Schumacher og fjölskyldu hans, að hann muni jafna sig af áverkum sínum. Við sendum eiginkonu hans, börnum og öðrum fjölskyldumeðlimum stuðning,“ sagði Merkel.

Eiginkona Schumachers og fjölskylda þakkaði í dag kveðjur og stuðning almennings. „Við viljum þakka læknateyminu sem við vitum að gerir sitt allra best til að hjálpa Michael,“ er haft eftir eiginkonu hans í yfirlýsingu. „Við viljum líka þakka fólki um allan heim sem hefur vottað samúð sína og sent kveðjur.“

Einn aðdáenda Schumacher, Sebastian Vettel, sagði í dag að hann hefði orðið fyrir miklu áfalli. Hann óskaði þess að Schumacher liði betur sem fyrst. Tennisstjarnan Boris Becker tísti á Twitter fyrr í dag: „Biðjum öll fyrir Schumacher, að hann hljóti skjótan og góðan bata.“

Gat ekki svarað spurningum læknanna

Stephan Chabardes, einn lækna Schumachers, sagði á blaðamannafundi fyrr í dag að ökuþórinn hefði verið í miklu uppnámi þegar hann var fluttur á sjúkrahúsið í gær. Handleggir hans og fótleggir kipptust til og virtist hann ekki hafa stjórn á þeim. Þá gat hann ekki svarað spurningum læknanna. Ástand hans versnaði skyndilega og féll hann stuttu síðar í dá.

Schumacher gekkst því næst undir aðgerð og er nú haldið sofandi í öndunarvél. Chabardes sagði einnig að hefði Schumacher ekki verið með hjálm, þá væri hann ekki á lífi í dag.

Læknirinn Jean-François Payen sagði fréttamönnum að það hefði þurft að skera Schumacher upp strax til þess að létta þrýstingi af höfði hans. „Því miður er hann með áverka á heila,“ segir Payen.

Fjölskylda Schumachers dvelst nú hjá honum á spítalanum og hafa vinir hans einnig flogið til Frakklands til að sýna honum og fjölskyldu hans stuðning.

Schumacher verður 45 ára í lok þessarar viku, 3. janúar næstkomandi.

Fyrrum ökuþórinn Michael Schumacher berst nú fyrir lífi sínu á …
Fyrrum ökuþórinn Michael Schumacher berst nú fyrir lífi sínu á sjúkrahúsi í Frakklandi. AFP
Frá sjúkrahúsinu þar sem Michael Schumacher liggur.
Frá sjúkrahúsinu þar sem Michael Schumacher liggur. AFP
Michael Schumacher á skíðum í Madonna di Campiglio í Dólómítafjöllum …
Michael Schumacher á skíðum í Madonna di Campiglio í Dólómítafjöllum á Ítalíu. mbl.is/afp
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert