Sænskur prestur hefur verið ákærður fyrir að beita unglingsdreng kynferðislegu ofbeldi. Presturinn hefur viðurkennt að hafa sent drengnum smáskilaboð þar sem hann lýsti áhuga sínum á að stunda kynlíf með honum. Hann neitar því hins vegar að með því hafi hann beitt hann kynferðisofbeldi. Hann hafi ekkert meint með athæfinu og í fljótfærni sent skilaboðin.
Presturinn kynntist drengnum í fermingarferðalagi og átti í samskiptum við hann í kjölfarið samkvæmt fréttavefnum Thelocal.se. Í september síðastliðnum sendi hann drengnum skilaboðin þar sem sagði: „Ég vona að við eigum eftir að enda saman í rúminu og stunda kynlíf saman. Þar sem ég er samkynhneigður og þú ert ungur og myndarlegur.“
Drengurinn sýndi foreldrum sínum skilaboðin sem höfðu samband við fulltrúa kirkjunnar í Kalmar-sýslu þar sem atburðurinn átti sér stað sem og lögregluna. Prestinum var í kjölfarið vikið varanlega frá störfum og lögreglurannsókn hafin á málinu. Presturinn hefur einnig hafnað kröfu drengsins um skaðabætur að upphæð 130 þúsund krónum.