Myrtu og pyntuðu eins árs barn

Breskur karlmaður og norsk unnusta hans hafa verið ákærð fyrir grimmilegt morð á eins árs gamalli dóttur konunnar. Barninu var dýpt ofan í fötu fulla af vatni til þess að aga hana að því er segir í frétt norsku sjónvarpsstöðvarinnar TV2 með þeim afleiðingum að það lét lífið. Fram að því hafði barnið verið ítrekað verið beitt grófu ofbeldi.

Fram kemur í fréttinni að atburðurinn hafi átt sér stað 3. október 2010. Barnið missti meðvitund eftir að hafa verið dýpt í tvígang ofan í fötuna. Farið var með barnið á sjúkrahús í kjölfarið þar sem það lést um kvöldið eins árs og tíu mánaða að aldri. Fólkið er einnig ákært fyrir að hafa neytt barnið til þess að borða chilipipar, baða það í köldu vatni og neytt það til þess að standa nakið úti í horni klukkutímum saman með bundna fætur.

Móðir barnsins, sem er 28 ára gömul, hefur hafnað því að um morð að yfirlögðu ráði hafi verið að ræða. Engin gögn styðji það. Að sögn lögmanns hennar hefur hún hins vegar viðurkennt að hafa ráðist á dóttur sína. Samkvæmt ákærunni gaf Bretinn, sem er 35 ára gamall, konunni fyrirmæli um það hvað hún ætti að gera við barnið í gegnum netspjall en hann var staðsettur í London. Hann var framseldur til Noregs í desember á síðasta ári og hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan. Hann hefur hafnað sekt í málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert