Telja lífið tilgangslaust

Ásdís Ásgeirsdóttir

Möguleiki er á því að rúmlega 750 þúsund manns á aldrinum 16 til 25 ára í Bretlandi telji líf sitt vera tilgangslaust. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Sky-fréttastofan greinir frá í dag.

Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að ungt fólk sem hefur verið atvinnulaust í langan tíma sýni oft einkenni geðsjúkdóma og hafi þar að auki reynt að skaða sjálft sig. Þriðji hver þessara ungu einstaklinga hefur íhugað sjálfsmorð. Rúmlega 2000 manns tóku þátt í rannsókninni.

Tvisvar sinnum líklegra er að atvinnulaust fólk á aldrinum 16 til 25 ára hafi fengið lyfseðil fyrir þunglyndislyf. „Þúsundir vakna á hverjum degi og standa í þeirri trú að lífið sé ekki þess virði að lifa því,“ segir Martina Milburn, stjórnandi rannsóknarinnar. „Fleiri en 440.000 einstaklingar á aldrinum 16 til 25 ára hafa verið atvinnulausir í lengri tíma og þetta unga fólk þarf á hjálp okkar að halda.“

Í desember voru 2,39 milljónir manna atvinnulausir í Bretlandi.

Frétt Sky-fréttastofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert