Gyðingahatur grasserar í Frakklandi

Þeir kalla hana quenelle, kveðjuna sem rutt hefur sér til rúms í Frakklandi undanfarin ár og dúkkaði skyndilega upp nýlega í knattspyrnuleik á Bretlandseyjum og körfuknattleiksleik í Bandaríkjunum. Um er að ræða handabendingu sem líkist öfugri nasistakveðju en skilaboðin eru sögð skýr; gyðingahatur.

Quenelle er einnig nafn á frönsku sætabrauði. Hún á þó ekkert skylt með sætabrauðinu og er sögð beisk kveðja til gyðinga. Kveðjan er rakin til uppistandarans Dieudonné M'bala M'bala og hefur verið mikið á milli tannanna á fólki að undanförnu. Innanríkisráðherra Frakklands, Manuel Valls, hefur kallað eftir banni við kveðjunni og raunar sýningum Dieudonné og François Hollande Frakklandsforseti sagðist á dögunum standa við bakið á ráðherra sínum. „Við verðum að samþykkja og styðja aðgerðir ríkisstjórnarinnar og innanríkisráðherrans þegar kemur að yfirlýsingum og athöfnum sem augljóslega fela í sér gyðingahatur,“ sagði Hollande.

Lýsa má quenelle við nokkurskonar æði í Frakklandi og keppast menn við að láta taka af sér myndir og myndbönd við þekkta staði í landinu þar sem þeir sýna handabendinguna. Þannig leitar franska lögreglan að manni sem vegna þriggja mynda sem teknar voru annars vegar í frönsku borginni Toulouse og hins vegar í París. Maðurinn sem enn er óþekktur lét taka mynd af sér fyrir utan gyðingaskóla í Toulouse þar sem fjöldamorðinginn Mohammed Merah myrti fjóra gyðinga árið 2012. Á annarri mynd sést hann fyrir utan fjölbýlishúsið þar sem Merah bjó og á þriðju fyrir framan minnismerki í París um helförina. Á öllum myndum sést hann heilsa með umræddri quenelle-kveðju.

Quenelle í boltaíþróttum

Dieudonné hefur hlotið dóma fyrir gyðingahatur þannig að engum ætti að dyljast skilaboðin sem felast í quenelle. Nasistakveðjan er bönnuð með lögum í Frakklandi auk annarra tákna nasismans og þeirra sem fela í sér gyðingahatur. Hingað til hefur quenelle talist of ólík nasistakveðjunni til að hún teljist á umræddum bannlista. En eins og áður segir kann það að breytast á næstunni.

Umræðan um quenelle náði langt út fyrir Frakkland í síðasta mánuði þegar annars vegar knattspyrnukappinn Nicolas Anelka fagnaði marki með kveðjunni og hins vegar myndir voru birtar af körfuboltamanninum Tony Parker þar sem hann heilsar með quenelle. Anelka sem er múslími bar við að hafa aðeins verið að styðja vin sinn Dieudonné og kveðjan hafi í engu falið í sér gyðingahatur. Parker sagðist ekki hafa vitað þýðingu kveðjunnar.

Anelka er eins og kunnugt er franskur og þó Parker sé fæddur í Belgíu ólst hann upp í Frakklandi. Anelka leikur með enska knattspyrnuliðinu West Bromwich Albion en Parker leikur með bandaríska NBA-liðinu San Antonio Spurs.

Netið vettvangur Dieudonné

Jean-Marc Ayrault, forsætisráðherra Frakklands, hefur einnig blandað sér í umræðuna um quenelle. Hann sagðist á dögunum ætla að berjast gegn því að gyðingahatur sé falið á bak við gamanleik, eins og Dieudonné er sakaður um að gera. En þrátt fyrir tal stjórnmálamanna virðist sem vegur Dieudonné fari vaxandi í Frakklandi og sífellt fleiri taka undir málstað hans.

Og jafnvel þó Dieudonné verði bannað að halda sýningar þá er hans aðalvettvangur netið. Þar talar hann reglulega við tugþúsundir aðdáenda sinna, til dæmis í gegnum samfélagsmiðlanna Facebook eða Twitter. Myndbönd hans á myndbandavefnum YouTube eru skoðuð af milljónum manna.

Það virðist því vera frjór jarðvegur fyrir skoðanir Dieudonné og eflaust mun heimurinn heyra meira af kveðjunni quenelle.

Dieudonné M'bala M'bala og quenelle-kveðjan umdeilda.
Dieudonné M'bala M'bala og quenelle-kveðjan umdeilda. AFP
Frakkar stilla sér upp og heilsa að hætti Dieudonné M'bala …
Frakkar stilla sér upp og heilsa að hætti Dieudonné M'bala M'bala. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert