Blóðbað í Suðurhöfum

Hvalaverndunarsamtökin Sea Shepherd segjast fylgjast með fimm japönskum hvalskipum í Suðurhöfum og segja að alls hafi fjórum hvölum verið slátrað. Segja samtökin að skipin hafi verið innan verndarsvæðis í Suðurhöfum.

Samtökin hafa birt myndskeið og ljósmyndir sem sýna þrjár dauðar hrefnur á þilfari hvalveiðitogarans Nisshin Maru og segja þau að fjórðu hrefnunni hafi verið slátrað þegar þyrla Sea Shepherd flaug yfir togarann.

Stjórnarformaður Sea Shepard í Ástralíu, Bob Brown, segir að það hafi verið blóð út um allt og að innyflum hvalanna hafi verið hent í sjóinn. 

Utanríkisráðuneyti Japans segir að um veiðar í vísindaskyni sé að ræða en Brown segir ekkert vísindalegt við veiðarnar, þær séu ekkert annað en slátrun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert