Föluðust eftir kynlífi í Vatíkaninu

AFP

Fyrrverandi varðmaður í Vatíkaninu fullyrðir að nokkrir embættismenn þess hafi falast eftir því að stunda kynlíf með honum fyrir nokkrum árum. Þar á meðal kardínálar, biskupar og prestar. Hann segir í samtali við svissneska dagblaðið Schweiz am Sonntag að hann hafi fengið allt að tuttugu slík tilboð.

Vörðurinn rifjar meðal annars upp tilvik þar sem háttsettur embættismaður bað hann um að hitta sig um miðja nótt í svefnherbergi sínu. Einnig þar sem biskup skildi eftir viskíflösku og kort í herbergi hans. Þá bauð prestur honum í kvöldverð og hafði á orði að vörðurinn sjálfur yrði í eftirrétt. Auk þess hefði háttsettur embættismaður reynt við hann. Vörðurinn segist hafa tilkynnt þessa áreitni til yfirboðara sinna en ekki fengið stuðning frá þeim. Honum hafi verið tjáð að þetta hlyti að vera misskilningur.

Haft er eftir talsmanni Vatíkansins að hann telji þetta ekki vera vandamál. Svissnesku varðmennirnir sem gæti Vatíkansins starfi þar í tvö ár og ætlast sé til þess að þeir séu áreiðanlegir hermenn og standi sterkt að vígi í trúmálum. Önnur mál eins og samskipti við aðra starfsmenn eða tómstundir séu einkamál þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert