Dómstóll í höfuðborg Indlands, Nýju-Delí, hefur úrskurðað að kynlíf fyrir hjónaband sé siðlaust og gangi gegn kenningum allra trúarbragða.
Virender Bhat dómari lét þessi ummæli falla eftir að hafa dæmt að kynlíf tveggja fullorðinna einstaklinga fyrir hjónaband á grundvelli loforðs um hjónaband síðar jafnist ekki á við nauðgun.
Í fyrra sagði dómari við dómstól í Delí að sambúð fólks fyrir hjónaband væri siðlaus afurð vestrænnar menningar.
Í frétt breska ríkisútvarpsins kemur fram að Bhat hafi látið ummælin falla í máli manns sem starfar hjá alþjóðlegu fyrirtæki sem hafði verið sakaður um að hafa nauðgað konu.
Maðurinn, sem er 29 ára gamall, var handtekinn eftir að kona sem starfar hjá öðru fyrirtæki sakaði hann um nauðgun árið 2011. Sagði konan að maðurinn hefði haft kynmök við sig eftir að hafa heitið því að kvænast henni.
Sagði dómarinn að þegar fullorðin kona, vel menntuð og starfar á skrifstofu samþykkir að hafa kynmök við félaga eða vin á grundvelli loforðs um að hann ætli að kvænast henni þá sé það á hennar eigin ábyrgð. Hún verði að taka ábyrgð á gjörðum sínum og gera sér grein fyrir því að það er ekki öruggt að hann standi við loforð sitt.
Árið 2010 vísaði hæstiréttur Indlands frá nokkrum málum gegn leikkonu sem talaði með kynlífi fyrir hjónaband. Jafnframt studdi hæstiréttur rétt fólks á að vera í sambúð án þess að það sé gift.