Byggð verði upp Bandaríki Evrópu

Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins.
Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins. AFP

„Við þurfum raunverulega pólitíska sameiningu. Að mínu mati þýðir það að byggð verði upp Bandaríki Evrópu með framkvæmdastjórnina sem ríkisstjórn og tvær þingdeildir - Evrópuþingið og öldungadeild með fulltrúum aðildarríkjanna. En vitanlega eru skiptar skoðanir um framtíð Evrópusambandsins. Þið kunnið að hafa aðrar hugmyndir um það líka og þannig á það að vera. Við þurfum á víðtækri umræðu að halda áður en hægt er að gera þær stóru breytingar sem þurfa að eiga sér stað.“

Þetta sagði Viviane Reding, dómsmálastjóri Evrópusambandsins og varaforseti framkvæmdastjórnar sambandsins, í ræðu sem hún flutti í gær á nýársmóttöku í Brussel á vegum hollenska fjarskiptafyrirtækisins KPN. Reding fjallaði þar meðal annars um þá umræðu sem átt hefur sér stað undanfarið um njósnir um persónuleg gögn almennings. Til stæði að setja heildarreglur innan Evrópusambandsins um vernd persónulegra gagna. Almenningur færi fram á öryggi í þeim efnum og ætti fullan rétt á því.

Sífellt fleiri ákvarðanir teknar af ESB

Reding benti á að efnahagskrísan innan Evrópusambandsins hefði haft í för með sér stóraukinn samruna innan sambandsins sem hefði verið óhugsandi fyrir nokkrum árum. Meðal annars hefði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins fengið heimild til þess að fjalla um fjárlög ríkjanna áður en þau kæmu til kasta þjóðþinganna. Þá væri unnið að því að koma á bankabandalagi innan sambandsins. Þessi samruni væri nauðsynlegur liður í því að koma í veg fyrir slíka erfiðleika í framtíðinni.

Krísan hefði  fært heim sannindi um að ekkert ríki væri eyland og að það sem gerðist í einu aðildarríki Evrópusambandsins hefði áhrif á önnur. Þá væru sífellt fleiri ákvarðanir sem vörðuðu daglegt líf íbúa sambandsins teknar af stofnunum þess. Fyrir vikið væri nauðsynlegt að gera stofnanir Evrópusambandsins og ákvarðanatökur á vettvangi þess lýðræðislegri og gegnsærri. En þörf væri á mun meiri samruna en aðeins á sviði efnahags- og fjármála. Markmiðið ætti að vera Bandaríki Evrópu.

Kosningar til Evrópuþingsins mikilvægari

Reding ræddi ennfremur um kosningarnar til Evrópuþingsins í maí næstkomandi. Þátttaka kjósenda í þeim hefði stöðugt minnkað frá fyrstu kosningunum árið 1979. Kosningarnar væru tækifæri íbúa Evrópusambandsins til þess að hafa áhrif á framtíðarþróun þess. Þess vegna væri þátttaka í þeim afar mikilvæg. Stóra spurningin væri hvernig hægt yrði að virkja fleiri kjósendur til þátttöku.

Þannig bendir hún á að aðeins þriðjungur kjósenda í ríkjum Evrópusambandsins telji að rödd þeirra heyrist á vettvangi sambandsins. Margir telji að um tapaðan málstað sé að ræða. Kjósendur fari ekki á kjörstað og þeir sem það geri styðji stjórnmálaflokka sem hafi efasemdir um Evrópusamrunann. „Ég er ekki tilbúin að gefast upp. Það er enn tími til stefnu til þess að virkja kjósendur, ef við sannfærum þá um að rödd þeirra og val skipti máli.“

Þar þurfi hins vegar fleiri að koma við sögu en aðeins framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Allar stofnanir sambandsins þurfi að taka þátt, aðildarríkin, fyrirtækin og félagasamtök. „Við þurfum öll að koma skilaboðunum á framfæri: Kosningar til Evrópuþingsins eru mikilvægari en kosningar til þjóðþinganna, vegna þess að þær ákveða hvaða stefnu heilt meginland tekur. Við verðum að tala skýrt: Þessar kosningar snúast ekki um meiri samruna eða minni. Þær snúast um það hvernig það Evrópusamband sem við höfum í dag nýtist okkur best.“

Ræða Viviane Reding í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert