Einn í framboði í hverju kjördæmi

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu hefur boðað til þingkosinga í landinu.
Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu hefur boðað til þingkosinga í landinu. AFP

Stjórnvöld í Norður-Kóreu tilkynntu í morgun að haldnar yrðu þingkosningar í landinu í mars, þær fyrstu frá því að leiðtoginn ungi Kim Jong-Un tók við völdum í desember 2011. Kosið er í landinu á fimm ára fresti.

Framkvæmd kosninganna er nokkuð á annan veg en þekkist í lýðræðisríkjum. Landinu er skipt í 687 kjördæmi og í síðustu kosningum árið 2009 var einn í framboði í hverju þeirra.

Þingið kemur saman tvisvar á ári í 1-2 daga til að samþykkja fjármálafrumvarp, ýmsar tillögur og breytingar á æðstu valdastöðum, ef einhverjar eru. Síðast kom þing landsins saman í apríl í fyrra þar sem lögð var fyrir samþykkt sem skilgreindi stöðu Norður-Kóreu sem kjarnorkuríkis.

Cheong Seong-Chang, hjá Sejong hugveitunni í Seúl í Suður-Kóreu, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að hugsanlegt væri að í kosningunum yrðu breytingar á helstu valdastöðum í landinu. Þegar hafa nokkrar breytingar orðið þar á, þær helstu að pólitískur lærifaðir Kims, Jang Song-Thaek, var tekinn af lífi. Hann var einn valdamesti maður landsins og var gefið að sök að hafa skipulagt leynilegt ráðabrugg.

Í dag er afmælisdagur Kims Jong-Un, en aldur hans er nokkuð á reiki og heimildum ber ekki saman um hvort hann fæddist 1982, 1983 eða 1984. Hugsanlega gæti hann verið  í hópi frambjóðenda í komandi kosningum og fetað þannig í fótspor föður síns, Kim Jong-Il, sem ávallt var sjálfur í framboði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert