Miskunnsami Kínverjinn fremur sjálfsvíg

Mynd úr safni
Mynd úr safni Afp

Kínverskur karlmaður sem aðstoðaði eldri borgara, og var síðar sakaður um að hafa ekið á hann, framdi sjálfsvíg eftir að hafa verið krafinn um miskabætur. Þykir þetta til marks um að dæmisagan af Miskunnsama Samverjanum eigi ekki vel við í kínversku nútímasamfélagi.

Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum hefur skaðabótamálum gagnvart fólki sem veitir öðrum aðstoð í góðri trú fjölgað gríðarlega að undanförnu. Hafa háar fjárkröfur ýtt undir umræðu um hvort ekki þurfi að gera bragarbót á lögum landsins og kannski ekki síst, siðferði.

Wu Weiqing, 46 ára íbúi í Dongyuan í Guangdong-héraði, var á ferð á gamlárskvöld á vélhjóli sínu er hann kom auga á eldri mann sem lá í jörðinni, að sögn ekkju Wu í viðtali sem birtist í Southern Metropolis Daily. Wu hjálpaði manninum á fætur og ók honum á heilsugæslu í nágrenninu. Þar greiddi hann 3.500 fyrir læknisaðstoð mannsins.

„Það hvarflaði ekki að eiginmanni mínum að gamli maðurinn og fjölskylda hans myndu halda því fram að það hafi verið hann sem hafi ekið hann niður og krefja okkur um hundruð þúsund júana í skaðabætur,“ segir ekkjan í viðtalinu.

Dóttir hans, Wu Haiyan, segir í viðtali við Guangzhou Daily að tveimur dögum síðar hafi faðir hennar sagt fjölskyldu og vinum frá því að fjölskylda gamla mannsins væri að krefja hann um háar bætur vegna lækniskostnaðar.

„Pabbi hringdi í mig og sagði að hann vildi lifa en hann væri neyddur út í dauðann,“ segir hún. Hann hafi reiðst yfir því að vera krafinn um peninga af sama manni og hann hafði aðstoðað. Hann hafi litið svo á að það væri betra að deyja og sýna þannig fram á sakleysi sitt heldur en að draga fjölskyldu sína ofan í aurinn. Faðir hennar hafi því sagt henni hvernig standa ætti að útförinni og nokkrum klukkustundum síðar hafi lík hans fundist í tjörn í nágrenninu.

Fjölskylda gamla mannsins neitar því í samtali við fjölmiðla að hafa krafið Wu um háar fjárhæðir og segir að Wu hafi ekið á gamla manninn. Yfirvöld hafa hafið rannsókn á málinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert