Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey í Bandaríkjunum, hefur rekið aðstoðarmanns sem er sakaður um að hafa skipulagt meiriháttar umferðarteppu í hefndarskyni gagnvart pólitískum andstæðingi.
Hneykslismálið hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og hefur Christie nú beðist afsökunar á þessu. Málið hafi bæði verið vandræðalegt og niðurlægjandi.
Christie er repúblikani og hefur verið álitinn vonarstjarna innan flokksins. Hann hefur m.a. þótt koma til greina sem frambjóðandi Repúblikanaflokksins fyrir næstu forsetakosningar.
Talið er að umferð hafi vísvitandi verið teppt til að refsa borgastjóra úr röðum demókrata sem vildi ekki styðja Christie til að ná endurkjöri.
Christie neitar því alfarið að hann hafi haft vitneskju um þetta ráðabrugg. Hann kveðst hafa verið blekktur.
Í morgun var greint frá því að embætti saksóknarans í New Jersey hafi hafið rannsókn á umferðarteppunni.
„Þetta er bæði vandræðalegt og niðurlægjandi fyrir mig hvernig sumir í mínum hópi hafa hegðað sér,“ sagði Christie í morgun. Hann sagði ennfremur að hann hefði látið Bridget Anne Kelly taka pokann sinn, en hún var einn nánasti ráðgjafi ríkisstjórans.