Enn er mikið mannfall í Sýrlandi

Frá borginni Daraya, suðvestur af höfuðborginni Damaskus.
Frá borginni Daraya, suðvestur af höfuðborginni Damaskus. AFP

Tæplega 500 hafa látið lífið í átökum í Sýrlandi það sem af er þessari viku í bardögum herliðs uppreisnarmanna og herskárra íslamista, ISIL, þar af 85 óbreyttir borgarar. Flestir hinna látnu eru uppreisnarmenn.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum Syrian Observatory for Human Rights. 

Hópar uppreisnarmanna hafa sameinast gegn ISIL og segja íslamistana fremja hræðileg grimmdarverk.

42 voru teknir af lífi af ISIL í borginni Aleppo og uppreisnarmenn tóku 47 liðsmenn ISIL af lífi, aðallega í borginni Idlib sem er í norðvesturhluta landsins. Í tilkynningunni segir að líklegt sé að enn fleiri hafi látið lífið, en illgjörningur sé að skrá öll dauðsföll vegna ástandsins í landinu. Þar er þess krafist að alþjóðlegur dómstóll fjalli um þau voðaverk sem framin séu í landinu.

Uppreisnarmenn hafa nú á valdi sínu mestan hluta byggðar í Aleppo og Idlib. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert