Yfirlýsing kínverskra stjórnvalda um að þau hafi nú fiskveiðilögsögu yfir umdeildum hafsvæðum á Suður-Kínahafi, er ögrun við nágrannaríkin, að mati Bandaríkjastjórnar. Þessi nýja fiskveiðilögsaga Kínverja tók gildi í byrjun árs og á umræddu hafsvæði eru m.a. eyjar sem tilheyra nágrannaríkjunum Víetnam og Filippseyjum.
Fiskveiðilögsaga Kínverja nær nú yfir um helming Suður-Kínahafs.
Svæðið er mikilvæg siglingaleið og þar eru gjöful fiskimið. Eftir þessar breytingar þurfa skip annarra þjóða að fá leyfi til að veiða þar. Þá kveða kínversk lög á um að sekta megi báta og skip sem komi inn í hafsögu Kína og gera búnað þeirra upptækan.
Stjórnvöld á Filippseyjum hafa krafið Kínverja skýringa og stjórnvöld í Taívan segjast ekki viðurkenna þessa breytingu á fiskveiðilögsögu Kína.
Í nóvember síðastliðnum færðu Kínverjar lofthelgi sína út yfir Austur-Kínahafi, m.a. yfir sker sem þeir hafa deilt um við Suður-Kóreu og eyjaklasa sem hefur verið innan lögsögu Japans.