Ariel Sharon, fyrrverandi forsætisráðherra Ísraels, er látinn, 85 ára að aldri. Sharon hafði legið í dái í átta ár, frá árinu 2006.
Sharon varð forsætisráðherra Ísraels árið 2001 og naut áður mikillar virðingar í landinu sem herforingi. Hann tók þátt í fjórum stríðum eftir stofnun Ísraelsríkis árið 1948.
Ariel Sharon var varnarmálaráðherra árið 1982 þegar hann stjórnaði innrás Ísraelshers í Líbanon. Meðan á innrásinni stóð drápu líbanskir skæruliðar, bandamenn Ísraela, hundruð Palestínumanna í flóttamannabúðum sem voru á valdi Ísraelshers. Ísraelsk rannsóknarnefnd komst síðar að þeirri niðurstöðu að Sharon bæri ábyrgð á fjöldamorðunum.
Sharon var lengi einn helsti talsmaður landtöku gyðinga á herteknu svæðunum. Hann breytti þó óvænt um stefnu árið 2005 þegar hann ákvað að leggja niður byggðir landtökumanna á Gaza og kalla herlið Ísraela á svæðinu heim. Sama ár gekk hann úr Likud-flokknum og stofnaði miðflokkinn Kadima áður en hann veiktist og féll í dáið.
Sharon fékk vægt heilablóðfall árið 2005 og annað ári síðar og hefur verið í dauðadái síðan. Haft var eftir lækninum Zeev Rotstein við Tel Hashomer sjúkrahúsið þann 2. janúar á þessu ári að lífsnauðsynleg líffæri væru byrjuð að gefa sig og lífi hans væri ógnað.