Nokkrir eru slasaðir eftir átök sem komu upp á milli mótmælenda og óeirðalöreglu í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu í nótt. Fyrrum innanríkisráðherra landsins, Yuriy Lutsenko, er meðal þeirra sem slösuðust í átökunum sem brutust út eftir að þrír aðgerðarsinnar fengu sex ára fangelsisdóm, grunaðir um að hafa skipulagt hryðjuverk.
Fjölmennur hópur mótmælenda safnaðist saman fyrir utan dómshúsið í Kænugarði. Átökin stigmögnuðust þegar mótmælendurnir köstuðu málningu í glugga og hentu steinum í bíla og önnur farartæki.
Mennirnir voru dæmdir í gær en þeir eru sagðir hafa ætla að sprengja upp styttu af sovéska leiðtoganum Vladimir Lenin árið 2011. Þeir tilheyra samtökum öfgasinnaðra hægrimanna.