Standi vörð um réttarríkið

Victoria Nuland er þessa dagana í heimsókn í Rúmeníu.
Victoria Nuland er þessa dagana í heimsókn í Rúmeníu. AFP

Bandaríska ríkisstjórnin hefur hvatt Rúmena til að standa vörð um réttarríkið. Hefur hún áhyggjur af nýlegum atlögum að sjálfstæði rúmenska dómskerfisins.

„Sjálfstætt dómskerfi er nauðsynlegt til að viðhalda sterku og fyrirsjáanlegu lýðræði. Þannig að það er áhyggjuefni þegar atlögur eru gerðar að því og það er líka áhyggjuefni þegar stjórnmálamenn úr öllum flokkum veikja vísvitandi stoðir dómskerfisins,“ sagði Victoria Nuland, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, við fjölmiðla í heimsókn sinni í Rúmenía.

Ekki er langt síðan nokkrir háttsettir stjórnmálamenn, þar á meðal fyrrverandi forsætisráðherra Rúmeníu, Adrian Nastase, voru settir í fangelsi vegna spillingar, en sérfræðingar hafa bent á að það sé til marks um aukið sjálfstæði rúmenskra dómstóla.

Á blaðamannafundi benti Nuland á að Rúmenar hefðu náð góðum árangri á síðustu fimm árum og brýndi hún fyrir þeim að halda áfram að standa vörð um sjálfstæðið. Stjórnmálamenn mættu ekki hafa afskipti af dómskerfinu.

Hún vísaði til nýlegs frumvarps þess efnis að þingmenn yrðu undanþegnir öllum spillingarákærum. Verði frumvarpið að lögum munu þeir stjórnmálamenn, sem þegar hafa verið sakfelldir, fá sakaruppgjöf.

Atkvæðagreiðslunni um frumvarpið var frestað fram í febrúarmánuð og sagði Nuland það vera óljóst hvort það væri enn á dagskrá rúmenska þingsins.

Frumvarpið hefur vakið mikla reiði meðal almennings í Rúmeníu og þá hefur bandaríska sendiráðið þar í landi, sem og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, mótmælt því harðlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert