Nýr varnarmálaráðherra Þýskalands, Ursula von de Leyen, vill að herinn verði fjölskylduvænni vinnustaður. Í samtali við þýska fjölmiðla segir hún að hún vilji gera hermönnum kleift að vera í hlutastarfi og stytta vinnuvikuna.
„Markmiðið mitt er að gera þýska herinn að einum af mest aðlaðandi vinnustöðum í Þýskalandi,“ sagði Ursula, sem er fyrsta konan til að gegna embætti varnarmálaráðherra þar í landi. Þá er hún móðir sjö barna.
Sagði hún jafnframt að mikilvægt væri að koma á jafnvægi milli vinnunnar og fjölskyldunnar.
Nýr fjölskyldumálaráðherra Þýskalands, Manuela Schwesig, hefur áform um að stytta vinnuvikuna fyrir foreldra með ung börn, þannig að hún verði um 32 klukkustunda löng, og ætlar að fjármagna það með nýjum skatti.