Mikhaíl Kalashnikov, faðir Kalashnikov-riffilsins, skrifaði biskupi rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar bréf áður en hann lést, en Kalishnikov óttaðist að hann bæri siðferðislega ábyrgð á dauða þeirra sem hafa fallið fyrir skotum riffilsins.
Kalashnikov lést í síðasta mánuði 94 ára að aldri. Hann skrifaði langt og tilfinningaþrungið bréf til biskups rétttrúnaðarkirkjunnar í maí 2012, að sögn talsmanna kirkjunnar.
Þeir segja að Kalshnikov hafi liðið „andlegar þjáningar“ vegna þeirra sem hafa látist af völdum riffilsins. Kalashnikov hafði opinberlega neitað að viðurkenna ábyrgð á dauða þeirra sem hafa fallið fyrir byssukúlum riffilsins.
Það kveður hins vegar við annan tón í bréfinu, sem hefur verið birt í rússneska dagblaðinu Izvestia. „Andlegar þjáningar mínar eru óbærilegar,“ skrifaði hann.
„Ég stend enn frammi fyrir sömu spurningunni sem er ósvarað: ef riffillinn minn hefur tekið mannslíf, getur þá verið að ég [...] sem kristinn maður og hluti af rétttrúnaðarkirkjunni, beri ábyrgð á dauða þeirra,“ spurði hann.
„Því eldri sem ég verð, því þyngra leggst þessi spurning á huga minn og ég velti því sífellt meira fyrir mér hvers vegna guð almáttugur leyfði mannskepnunni að búa yfir djöfullegum löngunum á borð við öfund, græðgi og árásarhneigð.“
Bréfið er ritað á bréfsefni í eigu Kalashnikov og undirritað af honum, en hann lýsir sjálfum sér sem „þræll guðs, hönnuðurinn Mikhaíl Kalashnikov“.