Karlmaður á fimmtugsaldri, sem var að senda dóttur sinni textaskilaboð á gsm síma sinn í kvikmyndahúsi í Flórída í gær var skotinn til bana af öðrum gesti í kvikmyndahúsinu þar sem athæfi mannsins fór svo í taugarnar á honum. Árásarmaðurinn er rúmlega sjötugur lögreglumaður á eftirlaunum.
Samkvæmt frétt CNN voru mennirnir í bíói í Wesley Chapel í Flórídaríki og var sýning myndarinnar ekki byrjuð heldur var verið að sýna brot úr væntanlegum myndum.
Maðurinn, Chad Oulson 43 ára, var í bíóinu ásamt eiginkonu sinni og þegar hann var að senda sms skilaboðinn bað eldri maðurinn, Curtis Reeves, hann um að leggja frá sér símann. Sinnaðist mönnunum og að sögn lögreglu og bíógesta fór Reeves út úr salnum til þess að leita að starfsmanni kvikmyndahússins til þess að kvarta undan athæfi Oulson.
CNN hefur eftir vitni í kvikmyndahúsinu að þegar Reeves kom til baka inn í salinn var hann einn á ferð og greinilega mjög pirraður, Oulson reis upp úr sæti sínu og spurði Reeves hvort hann hafi farið fram til að kvarta undan sms sendingunum og bætti við: „Ég var bara að senda ungri dóttur minni skilaboð.“
Deilur þeirra urðu sífellt háværari og poppkorn fékk að fjúka. En síðan gerðist það sem enginn átti von á, nema kannski í kvikmynd, skothvellur heyrðist. Oulson særðist lífhættulega en eiginkona hans, sem einnig varð fyrir skoti er hún lyfti hendinni upp til þess að verja eiginmann sinn er árásarmaðurinn dró upp byssu. Oulson lést við komuna á sjúkrahús en eiginkona hans er ekki í lífshættu.
Einn gesta í bíóinu segir í samtali við CNN að hann hreinlega trúi því ekki að einhver komi vopnaður skammbyssu í bíó.
Reeves, sem var með eiginkonu sinni í kvikmyndahúsinu, var handtekinn á staðnum og hefur verið kærður fyrir manndráp. Reeves fór á eftirlaun 1993 en hann hafði verið yfirmaður á lögreglustöð í nágrenni Tampa. Hann starfaði eftir það sem framkvæmdastjóri öryggisgæslu í Busch Gardens skemmtigarðinum til ársins 2005.