Danskri konu nauðgað af hópi

Mikil reiði er í indversku samfélagi vegna tíðra ofbeldisverka gagnvart …
Mikil reiði er í indversku samfélagi vegna tíðra ofbeldisverka gagnvart konum í höfuðborg landsins og víðar. AFP

Danskri konu var nauðgað af hópi karlmanna í höfuðborg Indlands, Nýju-Delí, í gærkvöldi en konan hafði orðið viðskila við ferðamannahópinn sem hún var með.  Hafði hún spurt mennina til vegar, að sögn lögreglu.

Konan, sem er 51 árs gömul, var að koma úr heimsókn í safn þegar hún var viðskila við hópinn á leið á hótel þeirra í vinsælu hverfi í borginni. Mennirnir voru að minnsta kosti sex talsins og vopnaðir hnífum. 

Rajan Bhagat, talsmaður lögreglunnar, segir að lögreglan sé með menn í haldi sem talið er að séu árásarmennirnir og er verið að yfirheyra þá.

Samkvæmt frétt AFP á konan að hafa látið félaga sína vita af árásinni þegar hún komst loksins á hótel sitt í Paharganj hverfinu, skammt frá Connaught Place í miðborginni.

Hún hafði spurt mennina til vegar skammt frá aðaljárnbrautarstöðinni í Nýju-Delí eftir heimsókn á safnið. Þeir námu hana hins vegar á brott og nauðguðu.

Samkvæmt frétt Politiken er danska sendiráðið í Nýju-Delí í sambandi við konuna. Hefur Politiken eftir dönsku utanríkisþjónustunni að málið sé komið á borð til þeirra en ekki sé hægt að veita nánari upplýsingar um málið að svo stöddu.

Frétt Politiken

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert