Fulltrúar í nefnd Sameinuðu þjóðanna um réttindi barna kröfðust þess af fulltrúum páfagarðs á fundi þeirra um kynferðisbrotamál í Genf í Sviss í dag að þeir sýndu að þeim væri alvara með að taka á kynferðisofbeldi kynferðisofbeldi kaþólska presta gagnvart börnum.
Frans páfi hefur heitið því að taka á slíkum brotum og hefur talað um „ekkert umburðarlyndi“ í þessum efnum.
Hann setti á stofn sérstaka nefnd í síðasta mánuði til að rannsaka slíka glæpi og til að efla fyrirbyggjandi aðgerðir og stuðning við fórnarlömb þeirra.
Kaþólska kirkjan hefur um hríð sætt ámæli fyrir að hafa þaggað þessi mál niður og hafa fært presta til í starfi þegar upp um slík mál hefur komist í stað þess að láta rannsaka málin. Fulltrúar páfagarðs sögðu á fundinum að það væri liðin tíð, ekki væri neitt pláss fyrir barnaníðinga innan kirkjunnar og sögðust fylgja lögum og reglum varðandi meðferð slíkra mála í þeim löndum sem þau koma upp í.
Þolendur kynferðisofbeldis sem fylgdust með fundinum í dag kváðust vonast til að hann yrði til þess að draga úr þöggun páfagarðs.
Á ári hverju berast Páfagarði um 600 tilkynningar atvik sem varða kynferðislega misnotkun eða áreitni af hendi kaþólskra presta, sum atvikin áttu sér stað á 7., 8. og 9. áratugnum.