Skammbyssa er nú fáanleg á Indlandi, sérstaklega hönnuð fyrir konur. Byssan er nefnd eftir ungri konu sem lést í kjölfar hópnauðgunar í strætisvagni í Delí.
Yfirvöld segja að konur geti notað byssuna til að verja sig en gagnrýnendur segja vopnið vanvirðingu við minningu ungu konuna sem lést.
„Hún er lítil, létt, aðeins 500 grömm, og henni er auðveldlega hægt að koma fyrir í handtösku,“ segir Abdul Hameed, framkvæmdastjóri ríkisreknu vopnaverksmiðjunnar sem framleiddi byssuna, í samtali við BBC.
Þá segir hann byssuna smekklega. Byssuskeftið er úr viði og byssan sjálf úr títaníum. Einnig segir hann byssuna meðfærilega. Í hlaupið er grafið nafnið Nirbheek. Það er það nafn sem Indverjar kalla stúlkuna sem var nauðgað en raunverulegt nafn hennar hefur aldrei verið gefið upp opinberlega.
Byssan er seld jafnt konum sem körlum en hún er sérstaklega markaðssett sem „fyrsta byssan fyrir konur“ í Indlandi. Til að gera hana aðlaðandi er henni m.a. pakkað inn í nokkurs konar skartgripaskrín.
„Það er okkar trú að konur sem beri þessa byssu á sér muni verða óttalausar,“ segir Hameed en nafnið Nirbheek þýðir óttalaus.
Sjá ítarlega frétt BBC um málið hér.