Hittust á laun í tvö ár

Ekkert lát er af fréttum af ástarlífi forseta Frakklands, François Hollande. Tímaritið Closer greinir frá því í dag að forsetinn hafi haldið við leikkonuna Julie Gayet, í tvö ár. Eða allt frá því hann var í forsetaframboði.

Það var Closer sem greindi frá því fyrir viku að þau ættu í leynilegu ástarsambandi. Í dag birtir tímaritið fleiri myndir af parinu en í gær sagði Gayet að hún ætlaði að höfða mál gegn Closer vegna brots á friðhelgi einkalífsins.

Sambýliskona Hollandes, Valérie Trierweiler, var lögð inn á sjúkrahús fyrir viku þegar Closer birti frásögn af framhjáhaldi manns hennar og er það er.

Í Closer í dag kemur fram að Hollande hafi ekki aðeins átt ástarfundi með leikkonunni í íbúð hennar heldur hafi þau hist í annarri íbúð í vesturhluta Parísar. Eins hafi þau eytt helgum saman í Suður-Frakklandi og í fyrra hafi Hollande vikið sér undan ferðalagi með konu sinni til Grikklands til þess að geta verið í fríi með Gayet í kjördæmi hans, Correze.

Læknar hafa synjað Hollande um að heimsækja Trierweiler á sjúkrahúsið og bera því við að hún sé úrvinda og þurfi á algjöru næði að halda. RTL útvarpsstöðin birti hins vegar frétt um að Trierweiler hafi sagt við stöðina að Hollande hafi sent henni súkkulaði og blóm á sjúkrabeðið. 

Samkvæmt frétt RTL ræðir François Hollande reglulega við lækna hennar og athugar með líðan hennar. s

Trierweiler á að vera með mjög lágan blóðþrýsting og varla getað staðið í fæturnar. Eins er hún langt niðri en neitar því að hafa fengið taugaáfall eftir að fréttir af ástarsambandi Hollande og Gayet birtust fyrir viku síðan.

Samkvæmt frétt Le Nouvel Observateur hvarflar ekki einu sinni að Trierweiler yfirgefa sambýlismanninn og hún sé reiðubúin til þess að fyrirgefa honum framhjáhaldið.

Fjölmiðlar hafa fylgst grannt með málinu og hafa reynt að fá svör hjá fyrrverandi sambýliskonu Hollande og barnsmóður, Ségolène Royal, um framhjáhald forsetans án árangurs. Eins virðist almenningur í Frakklandi sýna einkalífi forsetans lítinn áhuga og mikill meirihluti segir það sama og forsetinn sjálfur: Þetta er hans einkamál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert