Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að samkynhneigðir einstaklingar séu velkomnir til Sochi þar sem vetrarólympíuleikarnir fara fram í næsta mánuði. Hann tekur hins vegar skýrt fram að það skuli ekki standa í því að breiða út áróður fyrir samkynhneigð.
„Hér er ekki í gildi bann gagnvart óhefðbundnum kynferðissamböndum,“ sagði forsetinn í Sochi í dag.
„Það er aftur á móti bannað að vekja athygli á samkynhneigð og barnaníði á meðal ólögráða einstaklinga,“ sagði forsetinn er hann ræddi við sjálfboðaliða sem munu taka þátt í starfinu í kringum vetrarólympíuleikana.
Pútín sagði í samtali við breska ríkisútvarpið, að rússnesk stjórnvöld muni sjá til þess að öryggismál í kringum leikana verði í góðu lagi, en án þess þó að það trufli viðburðinn.
Þá vísaði Pútín því á bug að leikarnir væru tækifæri fyrir hann til að hefja sjálfan sig til vegs og virðingar. Hann segir að þetta sé tækifæri til að efla siðferðisþrek rússnesku þjóðarinnar í kjölfar erfiðs tímabils sem tók við eftir hrun Sovétríkjanna árið 1991.