Líkir samkynhneigð við háan blóðþrýsting

Sunnudagsmessa á Péturstorginu í Róm í gær, 19. janúar. Nýskipaður …
Sunnudagsmessa á Péturstorginu í Róm í gær, 19. janúar. Nýskipaður kardínáli kirkjunnar líkir samkynhneigð við kvilla. AFP

Samkynhneigð er kvilli sem hægt er að lækna með réttri meðferð. Þetta staðhæfir Fernando Sebastian Aguilar, nýskipaður kardínáli í kaþólsku kirkjunni, og hafa ummælin vakið hörð viðbrögð í heimalandi hans, Spáni.

„Margir kvarta undan samkynhneigð og líða hana ekki. En ég segi með allri virðingu að samkynhneigð er röng leið til að tjá kynhvöt, því tilgangur hennar er að fjölga mannkyni,“ sagði hinn 84 ára gamli Aguilar í viðtali við spænska dagblaðið Sur.

Frans páfi tilnefndi hann einn af 19 nýjum kardínálum kaþólsku kirkjunnar fyrir rúmri viku, en opinber tilnefning þeirra verður 22. febrúar. Páfi sagði fyrir nokkrum mánuðum að hann væri þess ekki umkominn að dæma fólk eftir kynhneigð og þóttu þau orð lýsa meira umburðarlyndi en fyrri páfar hafa látið í ljós. 

Ekki móðgun, heldur hjálp

„Öll þjáumst við af ýmsum kvillum. Ég er með of háan blóðþrýsting, en verð ég reiður ef einhver bendir mér á það? Það er kvilli og ég þarf að gera allt sem ég get til að komast fyrir hann,“ sagði erkibiskupinn í viðtalinu. „Að benda samkynhneigðum á að kynhneigð þeirra sé galli er ekki móðgun, það er hjálp því að í mörgum tilvikum er hægt að lækna samkynhneigð með viðeigandi meðferð.“

Réttindasamtök samkynhneigðra á Spáni hafa látið í ljós óánægju sína með ummælin. „Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem kardínáli segir að samkynhneigð sé sjúkleg,“ segir Nicolas Fernandez, formaður Entiende sem eru samtök homma og lesbía í Malaga og bætti við að þörf væri á löggjöf sem gerði slík ummæli refsiverð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert