Átök hafa brotist út á milli lögreglu og mótmælenda í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu.
Fyrstu fréttir AFP-fréttastofunnar og BBC herma að lögreglan sé að brjóta niður vegtálma mótmælenda. Haft er eftir mótmælendum að lögregla hafi skotið einn til bana.
Lögreglan kom inn á svæðið þar sem mótmælendur halda til á Grushevsky stræti upp úr klukkan sex í morgun og kom þegar til átaka milli mótmælenda og lögreglu.
Læknar, sem eru meðal mótmælenda, staðfesta að einn hafi látist af völdum skotsárs.
Í gær tóku gildi lög sem banna mótmæli í Úkraínu en allt frá því í nóvember hafa tugir eða hundruð þúsunda mótmælenda komið saman í Kænugarði til þess að mótmæla forseta og stjórn landsins.