Kafaldsbylur á austurströndinni

Mikið hefur snjóað í norðausturhluta Bandaríkjanna í nótt og er 28 stiga frost í Chicago, að teknu tilliti til vindkælingar. Kafaldsbylur er víða og eru ruðningstæki að störfum þar sem færð er tekin að spillast og gengur umferð hægt.

Vetrarveðrið nær allt frá Washington til New England og samkvæmt fréttum er leiðindaveður og færð í miðvesturríkjunum.

Í New York hefur snjóað frá því í gærkvöldi og er búist við því að þegar íbúar borgarinnar fara af stað í morgunsárið verði 35 cm jafnfallinn snjór yfir borginni.

Íbúar sem New York Times ræddi við seint í gærkvöldi voru lítt hrifnir af veðurfarinu. „Þetta er hræðilegt. Snjórinn er skemmtilegur til að byrja með en einungis til að byrja með,“ sagði Mary Catherine Hughes, þar sem hún stóð á biðstöð og beið eftir neðanjarðarlestinni í nístingskulda.

Fáir voru á ferli í Washington í gærkvöldi enda mæltu yfirvöld með því að fólk héldi sig heima vegna veðursins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka