Meirihluti þingmanna á hollenska þinginu vill að boðað verði til þjóðaratkvæðis þegar til stendur að framselja frekari völd frá Hollandi til stofnana Evrópusambandsins. Þetta hafi komið fram í umræðum í þinginu sem boðað var til í kjölfar þess að safnað var 63 þúsund undirskriftum til stuðnings þess að slík umræða færi fram.
Fram kemur í hollenska dagblaðinu Volkskrant að hollenskir jafnaðarmenn væru hlynntir ráðgefandi þjóðaratkvæði í þeim efnum og kristilegir demókratar væru á sama máli. Hins vegar væri Frjálslyndi flokkurinn undir forystu Marks Rutte, forsætisráðherra, ekki hlynntur því fyrirkomulagi.
Ennfremur kemur fram í fréttinni að samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem fyrirtækið Maurice de Hond framkvæmdi að 67% Hollendinga vilji að þjóðaratkvæði fari fram standi til að framselja frekara vald frá Hollandi til Evrópusambandsins.