Lögreglan í Vestur-Bengal á Indlandi hefur handtekið þrettán manns í tengslum við hópnauðgun á konu. Var konunni nauðgað að fyrirskipan öldungaráðs þorpsins sem hún býr í en ráðið var ósátt við samband hennar við mann. Konan, sem er tvítug, er á sjúkrahúsi og er ástand hennar alvarlegt.
Í frétt BBC kemur fram að öldungaráð í þorpum á Indlandi, sem ekki hafa neinn lagalegan grundvöll, staðfesta oft harðar refsingar meðal þorpsbúa, stundum dauðadóm, ef viðkomandi brýtur viðteknar venjur þorpsins.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu var konunni nauðgað á mánudagskvöldið en hún átti í sambandi við mann sem er af öðrum ættbálki en hún.
Fjölskyldan gat ekki greitt svo farið og njótið stúlkunnar
Samband þeirra hefur staðið yfir í fimm ár og að sögn lögreglu kom maðurinn, sem býr í öðru þorpi, í heimsókn á heimili konunnar á mánudag þar sem hann bað um hönd hennar. Þorpsbúar tóku hann höndum sem og konuna. Yfirmaður þorpsráðsins sektaði síðan parið fyrir glæpinn að verða ástfangin. Maðurinn greiddi skuld sína en þar sem fjölskylda ungu konunnar gat ekki greitt sinn hluta sektarinnar og því fyrirskipaði yfirmaður ráðsins, sem er fjarskyldur ættingi konunnar, að henni yrði nauðgað upp í skuldina.
„Fjölskylda hennar gat ekki greitt svo farið og njótið stúlkunnar og skemmtið ykkur,“ á yfirmaður ráðsins að hafa sagt við þorpsbúa. Lögreglan hefur eins og áður sagði handtekið 13 í tenglsum við málið, þar á meðal yfirmann þorpsráðsins.
Þrátt fyrir að árásin hafi verið gerð á mánudagskvöld þá var það ekki fyrr en í gær sem fjölskylda konunnar kærði ofbeldið og konan var lögð inn á sjúkrahús.
Árið 2010 fyrirskipaði öldungaráð í þropi í Birbhum þremur konum að afklæðast og ganga naktar fyrir framan hóp af fólki en konunum var refsað fyrir að hafa haft náin samskipti við menn af öðrum ættbálkum.