Hélt framhjá stóru ástinni

Valerie Trierweiler í garðinum við forsetahöllina.
Valerie Trierweiler í garðinum við forsetahöllina. AFP

Valerie Trierweiler er úr millistéttarfjölskyldu en náði þeim árangri að tryggja sér skrifstofu í frönsku forsetahöllinni. Þessi glæsilegi blaðamaður náði þó aldrei að heilla frönsku þjóðina á þeim stutta tíma sem hún var forsetafrú.

Og nú er ævintýrið úti því í dag tilkynnti sambýlismaðurinn, Francois Hollande Frakklandsforseti, að þau hefðu slitið sambandi sínu. Fyrir tveimur vikum komst upp um ástarsamband forsetans við leikkonuna Julie Gayet, sem er tuttugu árum yngri en hann.

Þetta er í annað sinn sem Trierweiler, sem er 48 ára, er önnur af tveimur konum Hollande. Er þau hófu samband sitt á laun var hann í sambandi með Segolene Royal, sem m.a. sóttist eftir forsetastólnum árið 2007 en mistókst ætlunarverkið.

Sama ár skildi Hollande við Royal, sem hann á með fjögur börn, og samband hans og Trierweiler varð opinbert. Í viðtali við tímaritið Gala í október árið 2010 sagði Hollande: „Valerie er stóra ástin í lífi mínu.“

Trierweiler komst svo fyrir alvöru í sviðsljósið í kosningabaráttu Hollande og tilkynnti strax að hún ætlaði ekki að vera einhvert skrautblóm. „Ég hef persónuleika. Þeir geta ekki múlbundið mig,“ sagði hún í viðtali í apríl árið 2012.

Þetta áttu eftir að reynast orð að sönnu því aðeins nokkrum vikum eftir að Hollande tók við sem forseti komst hún í fréttirnar fyrir að lýsa stuðningi við helsta andstæðing Royal í þingkosningum. Þetta gerði hún á Twitter og fannst Frökkum eins og hún væri að skjóta á Royal sem hafði eytt þremur áratugum ævi sinnar í sambúð með Hollande. Frakkar stóðu með Royal og fannst Trierweiler hafa sýnt hroka.

Það var ekki fyrr en fjórum mánuðum síðar sem Trierweiler baðst afsökunar og sagði að slík mistök myndu ekki endurtaka sig.

Trierweiler hefur verið uppnefnd „forsetakærasta“ (e. First Girlfriend) í bandarískum fjölmiðlum og Rottweiler af sínum helstu gagnrýnendum. Hún hafði nokkra starfsmenn sér til aðstoðar í Elysee-höll, m.a. bílstjóra. Eftir að Hollande varð forseti dró hún úr vinnu sinni sem blaðamaður og fór að sinna góðgerðarmálum. 

Auk þess að skrifa í dagblöð hafði hún einnig starfað á hinni einkareknu sjónvarpsstöð Direct 8. Þar tók hún viðtöl og stýrði umræðuþáttum um stjórnmál.

En lífið í höllinni var ekki eintómur dans á rósum. Þann 10. janúar birti glanstímaritið Closer myndir af Hollande að heimsækja hina ungu ástkonu sína. Síðan bárust fréttir af því að sambandið hefði staðið frá því áður en hann varð forseti.

 Trierweiler tók þetta mjög nærri sér og lagðist inn á sjúkrahús vegna „þreytu“ sama dag og fréttin fór sem eldur í sinu um heiminn. Hún lá á sjúkrahúsinu í viku.

Fyrsta spurningin sem Hollande fékk á blaðamannafundi í París nokkrum dögum síðar var: „Er Valerie Trierweiler ennþá forsetafrú?“

Hollande var óljós í svörum sínum í um tvær vikur en tilkynnti svo loks í kvöld að þau hefðu slitið sambandi sínu. Á morgun stóð til að Trierweiler færi til Indlands til að sinna góðgerðarmálum.

Trierweiler hefur aðeins einu sinni tjáð sig um málið frá því að upp komst um framhjáhaldið. Daginn sem hún útskrifaðist af sjúkrahúsinu þakkaði hún stuðningsmönnum sínum fyrir á Twitter og sagðist „mjög snortin“ af heillaóskum sem henni hefðu borist.

Hún hefur m.a. fengið samúðarkveðjur frá fyrrverandi forsetafrú landsins, Bernadette Chirac, en eiginmaður hennar, Jacques, var þekktur kvennabósi. Chirac sagðist samhryggjast henni og bætti við að það væri erfitt að vera í sviðsljósinu.

Trierweiler er fædd 16. febrúar árið 1965. Hún segist hafa alist upp í miðstéttarfjölskyldu. Hún er fimmta í röð sex systkina.

Afi hennar rak eitt sinn banka. Faðir hennar var líkamlega fatlaður og eftir að hann lést vann móðir hennar í skautahöll til að ná endum saman.

Hún ólst upp í Angers í vesturhluta Frakklands en lagði stund á stjórnmálafræði í Sorbonne-háskóla í París. Þar kynntist hún og giftist Denis Trierweiler og áttu þau þrjá syni.

Á sigurstund. Francois Hollande og Valerie Trierweiler fagna sigri í …
Á sigurstund. Francois Hollande og Valerie Trierweiler fagna sigri í forsetakosningunum árið 2012. AFP
Valerie Trierweiler hefur lengi starfað sem blaðamaður.
Valerie Trierweiler hefur lengi starfað sem blaðamaður. AFP
Samsett ljósmynd sem sýnir Francois Hollande og leikkonuna Julie Gayet.
Samsett ljósmynd sem sýnir Francois Hollande og leikkonuna Julie Gayet. EPA
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert