Mannfall á byltingarafmæli

Að minnsta kosti 29 manns létust er átök brutust út á milli mótmælenda og lögreglu í Egyptalandi í dag. Í dag var haldið upp á að þrjú ár eru liðin frá því að byltingin í landinu hófst en hún leiddi til þess að forsetanum, Hosni Mubarak, var steypt af stóli.

Fjöldi manns safnaðist saman á Tahrir-torgi í dag og stór hluti þeirra styður annan hershöfðingja til valda, Abdel Fattah al-Sisi. Lentu mótmælendur í útistöðum við lögregluna en einnig aðra mótmælendur á torginu.

Að minnsta kosti 29 manns létust víðsvegar um landið í átökunum í dag. Helst kom til átaka milli stuðningsmanna hershöfðingjans og íslamista sem styðja Mohamed Morsi, sem komið var frá völdum á síðasta ári. Hann sat aðeins á forsetastóli í eitt ár. 

Á föstudag voru sprengdar fjórar sprengjur í Kaíró, m.a. fyrir utan höfuðstöðvar lögreglunnar. Sex létust í árásunum.

Rétt áður en mótmælin hófust í dag sprakk lítil sprengja við aðra lögreglustöð í Kaíró. Einn særðist. Þá sprakk bílsprengja í borginni Suez og létust sextán í þeirri árás.

725 voru handteknir í mótmælunum í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka