Bandarískur dómari fyrirskipaði í gærkvöldi að slökkt yrði á öndunarvél sem hefur haldið lífi í þungaðri konu en vitað er að hún er heiladauð. Fór dómari að óskum fjölskyldu konunnar sem er á sjúkrahúsi í Texas.
Texas er meðal tólf ríkja Bandaríkjanna þar sem bannað er að slökkva á öndunarvéla ef konan sem þarf á aðstoð vélarinnar að halda er þunguð. Skiptir þar engu hversu stutt konan er komin á leið.
Eiginmaður og foreldrar Marlise Munoz, sem var úrskurðuð heiladauð þann 28. nóvember, þegar hún var aðeins komin fjórtán vikur á leið , hafa barist fyrir því að slökkt yrði á vélinni líkt og þau viti að hún hafi viljað að yrði gert.
Hins vegar neituðu forsvarsmenn John Peter Smith sjúkrahússins í Fort Worth að verða við beiðninni þar sem þrátt fyrir að Munoz væri heiladauð og að heili hennar myndi aldrei stýra líkama hennar, væri hún raunverulega ekki látin. Mjög var deilt á báða bóga um málið enda ólíkar skoðanir meðal fólks um líknardráp.
Hefur verið meðal annars bent á að það hljóti eitthvað að vera að í ríki þar sem ákvörðun stofnunar vegur þyngra heldur en fjölskyldu. Það var síðan í gær að sjúkrahúsyfirvöld staðfestu að fóstrið, sem nú er 22 vikna, ætti enga möguleika á lifa heilbrigðu lífi.
Í kjölfar þess fyrirskipaði dómari í Texas að fjarlægja skuli allan þann búnað sem haldi lífi í Munoz klukkan 17 á mánudag, klukkan 23 að íslenskum tíma.
Munoz, 33 ára, leið út af á heimili sínu seint um kvöld í nóvember. Er jafnvel talið að ástæðan hafi verið blóðtappi í lungum en hún hafði risið úr rekkju til þess að sinna fimmtán mánaða gömlum syni sínum. Eiginmaður hennar, Erick, er sjúkraliði og tókst honum að blása lífi í hana en hún hafði fengið hjartaáfall og var í öndunarstoppi þegar komið var með hana á sjúkrahús. Ekki tókst að bjarga henni og var hún úrskurðuð heiladauð fljótlega eftir komuna á sjúkrahús.