Struku því þau þoldu ekki veðrið

Edward Bunyan and Indira Gainiyeva.
Edward Bunyan and Indira Gainiyeva.

Ungt par sem strauk úr virtum, breskum heimavistarskóla og fannst mörgum dögum síðar í góðu yfirlæti í Dóminíska lýðveldinu, fær ekki að snúa aftur í skólann.

Skólameistari Stonyhurst skólans segir að hegðun þeirra Indiru Gainiyeva, 17 ára, og Edwards Bunyan, 16 ára, sé „óverjandi“.

Í frétt á vef Telegraph segir að skólayfirvöld hafi rætt málið við foreldra ungmennanna og að þeir hafi samþykkt ákvörðun skólans. Hins vegar hafði skólameistarinn frumkvæði að því að ræða við kollega sinn í öðrum skóla sem hefur samþykkt að taka parið í viðtal. 

Í yfirlýsingu frá skólanum segir að allir hafi verið fegnir er ungmennin fundust fyrir viku. „Síðan þá hafa þau fengið tiltal frá foreldrum sínum,“ sagði í yfirlýsingunni.

Unga fólkið segist nú iðrast gjörða sinna. 

Í gær birtust myndir í fjölmiðlum af Indiru og föður hennar, Ravil Gainiyev, að rífast fyrir utan fimm stjörnu hótel sem þau dvöldu á í Dóminíska lýðveldinu en þangað komu foreldrar þeirra til að sækja þau. 

Indira og Edward struku frá Stonyhurst, einum virtasta einkaskóla Bretlands, 13. janúar. Þeirra var saknað í viku en loks tókst að hafa uppi á þeim í Dómínska lýðveldinu. Þá höfðu þau notað kreditkort foreldra sinna til að kaupa flug og greiða fyrir gistingu á lúxushóteli. 

Parið er sagt hafa kvartað ítrekað um veðrið í Lancaskíri, þar sem Stonyhurst skólinn er. Þau ákváðu því einfaldlega að koma sér til heitari landa.

Indira er frá Kasakstan og Edward frá Kanada. Þau munu nú um helgina fljúga til síns heima.

Skólaárið kostar 30 þúsund pund, eða tæpar sex milljónir króna. Um þriðjungur nemendanna eru útlendingar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert