Skotárás í verslunarmiðstöð

Frá verslunarmiðstöðinni í Maryland þar sem skotárás var gerð í …
Frá verslunarmiðstöðinni í Maryland þar sem skotárás var gerð í dag. AFP

Lögreglan í Kólumbíu í Maryland-ríki í Bandaríkjunum fékk í dag tilkynningu um skotárás í verslunarmiðstöð í borginni. Samkvæmt frétt AFP-fréttastofunnar létust þrír í árásinni. Í færslu lögreglunnar á Twitter segir að einn hinna látnu hafi fundist í „námunda við byssu og skotfæri“. 

Að sögn CNN er allt tiltækt sjúkralið komið á vettvang og vinnur lögreglan nú að því að koma fólki út úr byggingunni. 

Skothríð braust út á annarri hæð verslunarmiðstöðvarinnar skömmu eftir að hún var opnuð í morgun. Verslunarmiðstöðin er í um 45 mínútna akstursfjarlægð frá höfuðborginni Washington. Þar eru um 200 verslanir.

Á mynd sem birt var á Twitter innan úr verslunarmiðstöðinni sjást starfsmaður og kúnnar verslunar fela sig í geymslu, segir í frétt CNN. Á annarri mynd sem birt var á Twitter sjást göt eftir byssukúlur í vegg.

Slökkviliðið birti einnig færslu á Twitter og hvatti fólk til að halda sig fjarri svæðinu.

Dagblaðið Baltimore Sun segir að gestir hafi heyrt skothríð og flúið í kjölfarið út úr byggingunni.

NBC-sjónvarpsstöðin náði viðtali við mann sem var að reyna að hringja í dóttur sína sem hann sagði enn halda til inni í byggingunni ásamt fjölda annarra. Dóttirin sagði að ringulreið hefði ríkt og að fólk hafi verið hvatt til að leita skjóls. „Það voru margir í uppnámi,“ sagði faðir stúlkunnar í samtali við NBC.

Frétt CNN um málið

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert