Öll fjölskylda „frændans“ tekin af lífi

Kim Jong-Un
Kim Jong-Un Mynd/AFP

Öll fjölskylda Jang Song-thaek, „frænda“ Kims Jong-Un, hefur verið tekin af lífi. Þetta segir í tilkynningu frá Suður-Kóresku ríkisfréttastofunni Yapon. Fréttastofan gefur ekki upp heimildir fyrir frétt sinni. 

Jang Song-thaek var einn valdamesti maðurinn í Norður-Kóreu áður en Kim Jong-Un lét taka hann af lífi í desember. Í tilkynningu Yapons segir að yfirvöld hafi kallað til alla fjölskyldumeðlimi hans og tekið af lífi. Þar á meðal er systir hans, Jang Kye-sun og eiginmaður hennar, Jon Yong-jin, sem var sendiherra landsins á Kúbu. Einnig var frændi hans, Jang Yong-chol tekinn af lífi ásamt sonum sínum en hann var sendiherra landsins í Malasíu. Öll börn og barnabörn Song-thaeks eru einnig talin af. 

Kim Jong-Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sagði í áramótaávarpi sínu að flokkur hans hefði gripið til einbeittra aðgerða til að losa sig við „sundurlynt úrþvætti“ og vísaði þar til aftöku Jang Song-Thaek, sem var giftur föðursystur Kims og einn helsti ráðgjafi leiðtogans unga þegar hann tók við völdum í landinu fyrir tveimur árum. Kim sagði að ákvörðunin hefði styrkt flokkinn og byltinguna og aukið samstöðu hundraðfalt.

Sjá frétt: Frændinn tekinn af lífi

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert