Óttast mænusóttarfaraldur í Danmörku

Með bólusetningu er komið í veg fyrir mænusótt.
Með bólusetningu er komið í veg fyrir mænusótt. mbl.is/Sigurður Jökull

Hætta á mænusóttarfaraldri í Danmörku er nú raunveruleg vegna þess að sífellt fleiri foreldrar kjósa að láta ekki bólusetja börnin sín. Dönsk yfirvöld ættu að grípa tafarlaust til aðgerða. Þetta segir formaður landssamtaka þeirra í Danmörku sem skaðast hafa af völdum veikinnar.

„Það þarf að auka áherslu á það við foreldra að þeir láti bólusetja börn sín gegn mænusótt,“ segir Holger Kallehauge sem er formaður PTU, landssamtaka mænusóttarsjúklinga og þeirra sem slasast hafa í umferðarslysum, í samtali við danska ríkissjónvarpið DR.

Lægsta hlutfall bólusettra í Danmörku

Í fyrra breytti alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO áhættumati fyrir mænusóttarfaraldur í Danmörku úr lágu í meðalhátt vegna þess að sífellt færri dönsk börn eru bólusett fyrir sjúkdómum á borð við mænusótt. Hlutfall bólusettra barna er 89-91%, en til þess að árangur bólusetninga sé fullnægjandi og veiti þá vernd í samfélaginu sem hún á að gera, þurfa 95% að vera bólusett, að sögn Robs Butler sem starfar á skrifstofu bólusetninga og ónæmis hjá WHO. Hann segir að í Danmörku sé lægsta hlutfall bólusettra á Norðurlöndunum og á löndum á Balkanskaganum.

Íslensk börn eru bólusett fjórum sinnum

Mænusótt er líka kölluð lömunarveiki. Afleiðingar sjúkdómsins geta m.a. verið vöðvalömun í baki og útlimum. Á vef embættis landlæknis segir að um sé að ræða afar smitandi sjúkdóm og byrjað hafi verið að bólusetja fyrir mænusótt árið 1955. 

Hér á landi eru börn bólusett við þriggja, fimm og tólf mánaða aldur og endurbólusett 14 ára. Bóluefnið endist ekki lengur en í tíu ár og því er möguleiki á að smitast síðar á ævinni. Því er mælt með að fullorðnir láti bólusetja sig gegn mænusótt á 10 ára fresti ef þeir ferðast til landa þar sem hætta er á smiti.

Vilja rannsaka klóakvatn

Undanfarna mánuði hafa mænusóttartilvik greinst í Sýrlandi, en Danmörk hefur tekið við flóttafólki þaðan. „Þess vegna er smithættan meiri en áður,“ segir Kallehauge og bendir á að sjúkdómurinn hafi einnig greinst í öðrum löndum flóttafólks sem kemur til Danmerkur. Hann vill að gerðar verði rannsóknir á klóakvatni, en með því er hægt að sjá tíðni sjúkdómsins og er sú aðferð notuð í nokkrum löndum, m.a. í Finnlandi. Astrid Krag, heilbrigðisráðherra Danmerkur, segist vera meðvituð um þá þróun sem hefur átt sér stað varðandi bólusetningar og segir að verið sé að meta hvort rannsaka eigi klóakvatn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert