Mæðgin í bæjarstjórn Þórshafnar

Frá Þórshöfn í Færeyjum.
Frá Þórshöfn í Færeyjum. Ljósmynd/Erik Christensen

Færeyskir fjölmiðlar greina frá því að sá sjaldgæfi atburður verði á fundi bæjarstjórnar Þórshafnar í kvöld að mæðgin taki sæti á sama fundi bæjarstjórnarinnar þegar Rúni M. Djurhuus tekur sæti sem varamaður fyrir Javnaðarflokkinn.

Móðir Rúna, Björghildur Djurhuus, hefur setið í bæjarstjórninni síðan kosið var 2012. Rúni varð hins vegar fyrsti varabæjarfulltrúi árið 2008. Aðspurður segist hann telja sig hafa setið eina 10 bæjarstjórnarfundi.

Í kosningunum 2012 buðu mæðginin sig fram á sama lista, lista Javnaðarflokksins. Móðirin fékk brautargengi, en sonurinn ekki. 

Fyrsti varamaður flokksins varð Levi Mörk, en hann er nú fluttur í annað sveitarfélag og missti þar með sæti sitt á listanum. Rúni varð því fyrsti varamaður einna sjö bæjarfulltrúa, því Javnaðarflokkurinn er með 7 af 13 bæjarfulltrúum, hreinan meirihluta. 

Halla Samuelsen, bæjarfulltrúi, mun forfallast á fundinn í kvöld, og þarf Rúni því að taka sæti hennar, en þó bara á þessum eina fundi, því hann verður fjarverandi í tvær vikur eftir fundinn.

Sitji varabæjarfulltrúi í þrjá mánuði eða lengur fær hann jafnframt sæti í nefndum bæjarins, en sitji hann skemur tekur hann bara sæti í bæjarstjórn, sem fundar einu sinni í mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert