Sósíalíski þjóðarflokkurinn, SF, í Danmörku ætlar að slíta stjórnarsamstarfi við Jafnaðarmannaflokkinn og Radikale Venstre. Formaður SF, Annette Vilhelmssen hyggst láta af formennsku og nokkur óvissa er um framtíð ríkisstjórnarinnar.
Vilhelmsen hefur verið formaður flokksins undanfarið eitt og hálft ár, en hún tók við af Villy Søvndal. Hún er þó hvergi nærri hætt afskiptum af stjórnmálum og á blaðamannafundi sem hún hélt í morgun sagðist hún ætla að halda áfram að vera öflugur þingmaður. „En ég gat ekki haldið flokknum saman,“ sagði hún á fundinum.
Mikil óánægja er í flokknum vegna sölu á hlut danska ríkisins í orkufyrirtækinu Dong til bandaríska fjárfestingabankans Goldman Sachs. Salan var samþykkt á miðstjórnarfundi flokksins í gærkvöldi, en fimm þingmenn hans eru afar ósáttir við þessa ákvörðun. SF hefur haft sex ráðuneyti sem eru; samgöngu-, utanríkis-, umhverfis-, skatta-, heilbrigðis- og félags-, barna- og innflytjendaráðuneytið. Síðastnefnda ráðuneytinu stýrði Vilhelmssen. Þessum ráðuneytum verður nú væntanlega skipt jafnt á milli Jafnaðarmannaflokksins og Radikale Venstre.
Skiptar skoðanir hafa verið um hvort stjórn Helle Thorning-Schmidt stendur þetta af sér, en stjórnin er minnihlutastjórn sem setið hefur með stuðningi Einingarlistans. Ask Rostrup, stjórnmálaskýrandi danska ríkissjónvarpsins DR, segir ekkert koma í veg fyrir að stjórnin haldi velli. „Það er ekkert sem hindrar áframhaldandi setu ríkisstjórnarinnar svo lengi sem hún heldur stuðningi meirihluta þingmanna,“ sagði Rostrup í viðtali á DR í morgun. Hann segir að búist sé við því að SF muni áfram styðja stjórnina ásamt Einingarlistanum.