Þegar Shandra Woworuntu lenti á flugvellinum í New York hélt hún að ameríski draumurinn væri rétt handan við hornið. En raunin var önnur, byssu var beint að höfðinu á henni og hún seld í vændi.
„Ert þú Shandra? Já, ég er hún,“ með þessum fáu orðum varð draumur ungrar indónesískrar konu um betra líf að engu heldur martröð undirheima þar sem kynlífsþrælkun og ofbeldi ráða ríkjum.
Hélt hún væri að fara að vinna á hóteli
Shandra Woworuntu, 25 ára, kom til Bandaríkjanna til þess að starfa á hóteli í Chicago árið 2001. Draumurinn var á enda þar sem hún stóð á John F. Kennedy-flugvellinum með byssu beint að höfðinu á sér af liðsmönnum glæpagengis. Ekkert sem hún hafði lært í lífinu gat undirbúið hana undir það að bíða sömu örlög og þúsundir kvenna, karla og barna sem neydd eru til þátttöku í huldum heimi, heimi kynlífsþrælkunar og þrælavinnu í Bandaríkjunum ár hvert.
Woworuntu er með framhaldsskólamenntun frá Indónesíu og starfaði í heimalandinu sem sérfræðingur á fjármálamarkaði en þegar efnahagskreppan dundi á Asíu missti hún vinnuna. Hún ákvað að svara auglýsingu í dagblaði þar sem auglýst var eftir starfmönnum í tímabundin störf á hóteli í Chicago í Bandaríkjunum. Áður en henni var boðið starfið þurfti hún að leysa próf og að sjálfsögðu útvega sér vegabréfsáritun til Bandaríkjanna. Þegar hún yfirgaf Indónesíu hét hún ungri dóttur sinni, sem varð eftir í heimalandinu, að hún kæmi fljótt heim aftur.
„Ég var spennt. Ég hélt að þetta væri ameríski draumurinn. Ég myndi vinna mér inn peninga og ég myndi snúa aftur heim eftir sex mánuði,“ segir hún í viðtali við AFP-fréttastofuna.
Hugsaði um það eitt að halda lífi
En fyrsta nótt hennar á bandarískri jörð var í vændishúsi í New York. Í kjölfarið var hún send á milli glæpamanna, sem seldu hana. „Þeir settu byssu við höfuðið á mér og ég hugsaði bara eitt - að halda lífi,“ segir hún í viðtalinu.
„Kannski hafði mér verið rænt, ég veit það ekki en það sem ég veit er að ég varð að halda lífi.“
Margar þeirra kvenna og ungra stúlkna sem hún kynntist í vændishúsum höfðu svipaða sögu að segja, þær höfðu verið tældar til fyrirheitna landsins. Hún var elst þeirra en flestar voru enn á unglingsaldri.
Hún var 10-12 ára og talaði ekkert þekkt tungumál
Hún segir að ein stúlkan sem hún kynntist hafi verið 10-12 ára gömul og sú talaði ekkert þeirra tungumála sem Shandra þekkti. „Ég vissi aldrei hvaðan hún var.“
Á kvöldin og á nótunni var hún þvinguð til þess að starfa í spilavítum og hótelum þar sem viðskiptavinir gátu valið á milli vændiskvennanna. Þeim var einfaldlega stillt upp í röð og viðskiptavinurinn benti á þá sem honum leist best á. Eins voru þær í einhverjum tilvikum sendar til viðskiptavina sem hringdu og óskuðu eftir þjónustu.
„Síminn hringdi stöðugt,“ segir Shandra og bætir við að konurnar hafi oft ekki fengið neitt að borða heldur hafi verið dælt í þær áfengi og dópi.
Hún var oft flutt á milli vændishúsa í sendiferðabíl með lituðum glerjum og haldið í herbergjum þar sem búið var að byrgja gluggana. Shandra segir að tímaskynið hafi verið fljótt að fara en henni var sagt að hún yrði að vinna við vændi til þess að greiða 30 þúsund Bandaríkjadali í lausnargjald.
Enn í dag getur hún ekki ímyndað sér hversu lengi henni var haldið fanginni. Það sem hún veit er að hún kom að vori og það var farið að kólna þegar hún slapp úr prísundinni það sama ár. „Þetta var eiginlega ekki alveg starfið sem þeir höfðu lofað mér,“ segir hún háðslega.
Það var opinn baðherbergisgluggi sem bjargaði henni úr haldi glæpamannanna. Hún fékk aðra stúlku til þess að láta slag standa með sér og þær stukku niður af annarri hæð og sluppu án skrámu.
14-17 þúsund þrælar seldir til Bandaríkjanna ár hvert
Hún reyndi að segja lögreglu, alríkislögreglunni og kirkjunnar þjónum frá sögu sinni en enginn trúði henni. Eftir hrakninga vikum saman endaði hún á ný hjá glæpamanni sem seldi hana hverjum sem vildi. En Shandra gafst ekki upp, án vegabréfs og allra skilríkja, stakk hún af enn á ný og tókst að leita sér aðstoðar hjá skrifstofu fórnarlamba mansals, Safe Horizon. Þar var henni loks trúað enda höfðu starfsmennirnir þar oft upplifað svipuð mál. Það eru ekki bara útlendingar sem verða fyrir slíku heldur einnig ungir Bandaríkjamenn sem strjúka að heiman.
Samtökin Alliance To End Slavery and Trafficking telja að á milli 14 og 17 þúsund karlar, konur og börn komi ólöglega inn til Bandaríkjanna á hverju ári. Þeim er smyglað inn í landið af mansalshringjum sem selja þau í kynlífsþrælkun eða í önnur þrælastörf, svo sem í verksmiðjum, bóndabæjum og á börum.