Kennslukona sem sagði starfi sínu lausu eftir að nektarmyndir af henni birtust á Veraldarvefnum verður ákærð fyrir að gefa lögreglu vísvitandi rangar upplýsingar um málið. Konan hélt því fram í fyrstu að síma hennar hefði verið stolið og þjófurinn sett myndirnar í dreifingu, það reyndist ósatt.
Konan, Jamie Climie, bar við að hafa tekið af sér nektarmyndir og sent þær eiginmanni sínum eingöngu. Þegar símanum hafi verið stolið hafi þjófurinn séð sér leik á borði og sent myndirnar vefsíðu sem gerir út á nektarmyndir af fyrrverandi rekkjunautum. Lögreglurannsókn leiddi hins vegar í ljós að konan sendi fleiri mönnum myndirnar en eiginmanni sínum. Eftir að það kom í ljós viðurkenndi konan að símanum hefði ekki verið stolið.
Climie sem er bandarísk kenndi við Cincinnati Hills Christian Academy sem er eins og nafnið gefur til kynna skóli sem byggir á kristnum gildum. Hún sá sér ekki fært að starfa þar lengur eftir að nektarmyndirnar komust í dreifingu.