Nauðgaði barni og kvæntist svo

Frá Malasíu
Frá Malasíu AFP

Dómstóll í Malasíu dæmdir mann í tólf ára fangelsi fyrir að nauðga tólf ára gamalli stúlku sem hann kvæntist síðar.

Mannréttindasamtök hvetja yfirvöld í Malasíu til þess að banna það að börn séu gefin í hjónabönd.

Héraðsdómur á eyjunni Borneó dæmdi fyrrverandi framkvæmdastjóra veitingastaðar,  Riduan Masmud, 41 árs, sekan um að hafa nauðgað stúlkunni í febrúar í fyrra. Hann var ákærður fyrir nauðgunina skömmu síðar en í maí í fyrra sagði hann fyrir rétti að hann hefði kvænst stúlkunni. Fyrir á Masmud fjögur börn.

Að sögn lögfræðings Masmud ákvað dómarinn að dæma hann í fangelsi fyrir nauðgun þrátt fyrir hjónavígsluna. Masmud ætlar að áfrýja dómnum.

Riduan var einnig dæmdur til þess að greiða sekt og að þola tvö vandarhögg. Eins á Riduan yfir höfði sér ákæru fyrir mútur en hann greiddi föður stúlkunnar 174 þúsund krónur fyrir að fá að kvænast henni. Það að börn séu gefin eða seld í hjónaband er ekki óalgengt í Malasíu. Samkvæmt lögum landsins þarf þó að fá leyfi frá dómstólum til þess að kvænast stúlku yngri en sextán ára en því er oft ekki framfylgt. Í Malasíu mega múslímar eiga allt að fjórar eiginkonur. Riduan á börnin með fyrstu eiginkonu sinni en börnin eru á aldrinum þriggja til átján ára.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert