Saga skipbrotsmannsins staðfest

Alvarenga á leið á sjúkrahúsið eftir að hafa loks fundið …
Alvarenga á leið á sjúkrahúsið eftir að hafa loks fundið land - eftir 13 mánuði á sjó. AFP

Ákveðnir kaflar í hinni ótrúlegu sögu skipbrotsmannsins José Salvador Alvarenga, sem segist hafa verið á reki um Kyrrahafið í 13 mánuði, hafa nú verið staðfestir af mexíkóskum yfirvöldum og sjómönnum þar í landi.

Alvarenga og 15 ára félagi hans fóru á hákarlaveiðar á litlum bát undan ströndum Mexíkó í desember árið 2012. Þeir lentu í vonskuveðri og tók að reka. Eftir nokkrar vikur á reki neitaði hinn ungi félagi Alvarenga að borða og lést skömmu síðar. Alvarenga segir að þetta hafi fengið mikið á sig og hann hafi íhugað sjálfsvíg.

Fyrir nokkrum dögum sá hann svo loks til lands í fyrsta sinn. Hann var þá komin að Ebon-eyju sem tilheyrir Marshall-eyjum. 

Margir, m.a. sendiherra Bandaríkjanna á eyjunum og utanríkisráðherra eyjaskeggja, hafa efast um sannleiksgildi sögunnar. 

Alvarenga segist hafa veitt sér til matar, m.a. skjaldbökur, fiska og fugla. Þá hafi hann drukkið skjaldbökublóð og safnað regnvatni.

Þeir félagar fóru til veiða frá þorpinu Costa Azul í Chiapas-ríki. Strandgæslan þar hefur nú staðfest við dagblaðið Guardian að bátur með tveimur sjómönnum hafi horfið tveimur dögum eftir að hann fór til veiða 17. desember 2012. Fleiri hafa staðfest þetta, m.a. eigandi bátsins.

 Jaime Marroquín, starfsmaður strandgæslunnar sem fór fyrir leitinni á sínum tíma, segir að veður hafi verið mjög slæmt og að það sé alveg hugsanlegt að stormurinn hafi feykt bátnum lengst á haf út. Hann segir algengt að sjómenn fari í 1-2 daga róðra frá þorpinu, m.a. til að veiða hákarla og rækjur. Oftast séu þeir án allra siglingatækja.

„Það var mikill vindur,“ segir Marroquín í samtali við Guardian. „Við leituðum mikið en við urðum að hætta leit eftir tvo daga vegna slæms skyggnis.“

Hins vegar segir í skýrslu strandgæslunnar að mennirnir tveir sem leitað var hafi heitið Cirilo Vargas og Ezequiel Córdova. Þeir voru báðir sagðir 38 ára. Það stangast á við framburð Alvarenga sem segir að félagi hans hafi verið unglingur. Í frétt Guardian segir að algengt sé að opinberar skýrslur séu rangar. Þó að nafn Alvarenga komi ekki fram í skýrslunni hefur hann sagst vera 37 ára sem stemmir nokkurn veginn við skýrslu strandgæslunnar.

Marroquín segir að eigandi bátsins hafi sagt að Vargas, annar þeirra sem var um borð, hafi verið frá El Salvador. Þaðan segist Alvarenga vera. Þá hafi faðir hins mannsins, Ezequiels, fylgst náið með leitinni.

AP-fréttastofan hefur eftir sjómönnum í þorpinu Costa Azul að Alvarenga hafi búið og unnið á svæðinu í nokkur ár. Þeir segjast aðeins þekkja hann undir gælunafninu La Chancha.

Alvarenga hefur sagt frá því að hann hafi búið í Mexíkó í fimmtán ár. Hann hafi hins vegar fæðst og alist upp í El Salvador, í bænum Garita Palmera, skammt frá landamærunum að Gvatemala.

Dagblað í El Salvador hefur haft uppá foreldrum hans. Það hefur eftir þeim að sonur þeirra hafi flust til Chiapas til að vinna við hákarlaveiðar. Hins vegar hafi fjölskyldan misst allt samband við hann fyrir átta árum er hann hætti að koma í heimsókn. „Við héldum að hann væri dáinn,“ hefur blaðið eftir móður hans, Maríu Juliu Alvarenga. „Ég get ekki lýst því hvernig mér líður, sem móður hans, að vita að hann hafi fundist.“

Dóttir Alvarenga er á unglingsaldri og hún segist spennt að hitta föður sinn á nýjan leik. 

Í frétt Guardians kemur fram að utanríkisráðuneytið í El Salvador hafi gefið út yfirlýsingu þess efnis að það muni vinna með mexíkóskum stjórnvöldum að því að koma skipbrotsmanninum til Mexíkó og þaðan til heimalandsins, El Salvador.

Talsmaður sjúkrahússins á Marshall-eyjum segir að Alvarenga verði útskrifaður í dag eða á morgun.

En það eru margir sem undrast í hversu góðu ásigkomulagi Alvarenga er eftir hremmingarnar á litlum, opnum báti á miðju Kyrrahafi í fleiri mánuði. „Það er með ólíkindum að lifa svona lengi við þessar aðstæður,“ segir einn mexíkóskur sjómaður við Guardian en bát hans rak á milli 8-9.000 kílómetra frá strönd Mexíkó til Marshall-eyja.

Frétt mbl.is: Ég grét - ó, Guð

Frétt mbl.is: Efast um sögu skipbrotsmannsins

Alvarenga var í ótrúlega góðu formi og gat gengið þrátt …
Alvarenga var í ótrúlega góðu formi og gat gengið þrátt fyrir bólgna ökkla. AFP
Frá Marshall-eyjum.
Frá Marshall-eyjum.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert