Íbúar í litlu þorpi, um 40 kílómetrum frá Sotsjí þar sem vetrarólympíuleikarnir hefjast innan tíðar, eru ekki ánægðir með þá röskun sem varð á lífi þeirra og búsetu eftir að undirbúningur fyrir leikana hófst árið 2009. Meðal annars þurfti að leggja nýjan veg og járnbrautateina til að tengja Sotsjí við önnur svæði landsins.
Aðeins búa um 150 manns í þorpinu og segja íbúarnir að erfiðar aðstæður þeirra hafi aðeins versnað eftir að framkvæmdir hófust.
Gregory, einn íbúa þorpsins, segir að vatnið í brunninum sem fjölskyldan notaði sé ekki lengur drykkjarhæft, heldur gruggugt og þetta sé bein afleiðing framkvæmdanna.
Fréttamaður AFP-fréttastofunnar ræðir við íbúa þorpsins en dregur fljótlega að sér athygli lögreglu sem vill vita hver hann er og hvaðan hann komi.
Alexander, einnig íbúi í þorpinu, seldi áður ávexti úr garði sínum. Hann segir að mengunin vegna framkvæmdanna og nýja vegarins hafi haft þau áhrif að hann getur ekki lengur selt ávextina. Hann segist lifa á 200 evrum, eða rúmum 31 þúsund íslenskum krónum á mánuði. Sonur hans sendir honum peningana.