Leikar í skugga mannréttindabrota

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, verður meðal gesta á opnunarhátíð vetrarólympíuleikanna í Sotsjí í Rússlandi en forsetar Bandaríkjanna, Frakklands og Þýskalands ætla ekki að mæta á leikana. Ekkert frekar en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, David Cameron, forsætisráðherra Bretlands eða forseti Kanada, Stephen Harper. Það gerir forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson hins vegar. Menntamálaráðherra Íslands, Illugi Gunnarsson, er einnig meðal gesta á opnunarhátíðinni á föstudag.

Alls fara 22 Íslendingar á ólympíuleikana, þar af eru keppendurnir 5 talsins, eftir því sem mbl.is kemst næst.

Eiginkona Illuga fer ekki á leikana en Dorrit eiginkona Ólafs Ragnars verður með honum í för. Ekki hafa fengist upplýsingar frá skrifstofu forseta Íslands með hvaða þjóðarleiðtogum hann muni funda í Sotsjí né heldur hvort hann muni ræða mannréttindamál við Vladimír Pútín á leikunum.

Mótmælt í nítján borgum

Boðað hefur verið til mótmæla í nítján borgum víðsvegar um heiminn í dag en með mótmælunum er verið að hvetja styrktaraðila leikanna í ár til þess að gagnrýna stefnu rússneskra stjórnvalda í garð samkynhneigðra og önnur mannréttindabrot sem framin eru í landinu.

Meðal annars verður mótmælt í New York, París, Lundúnum og Pétursborg en tveir dagar eru þar til leikarnir verða settir í Sotsjí.

Að sögn Thomas Bach, forseta Alþjóða ólympíunefndarinnar (IOC), mun Ban flytja ræðu á þingi IOC sem hefst í dag og lýkur á föstudag. 

Talsmaður SÞ, Martin Nesirky, segir að eina ástæðan fyrir því að Ban vilji mæta á ólympíuleikana sé að ræða við ólympíunefndina um aukið samband milli IOC og SÞ. Ban vilji auka það samband, að sögn Nesirky deila samtökin ýmsum hugsjónum einkum hvað varðar íþróttir í friðarþágu.

Ban mun jafnframt ræða við þjóðarleiðtoga þá daga sem hann dvelur í Rússlandi, samkvæmt frétt AP fréttastofunnar.

Velkomnir svo lengi sem þeir láta börnin í friði

Málefni samkynhneigðra hafa verið áberandi í allri umræðu um vetrarólympíuleikanna sér i lagi vegna hertra laga gagnvart samkynhneigðum í Rússlandi. Í síðasta mánuði sagði Vladimír Pútín, Rússlandsforseti, að samkynhneigðir séu velkomnir í Sotsíj svo lengi sem þeir láti börnin í friði. „Við bönnum ekki óhefðbundin kynferðissambönd,“ sagði Pútín. „Við bönnum áróður fyrir samkynhneigð og barnaníði.“

Ekki er langt síðan borgarstjórinn í Sotsjí hélt því fram að það væri enginn samkynhneigður í borginni og undrast eigendur næturklúbba sem eru ætlaðir samkynhneigðum í Sotsjí ummæli borgarstjórans.

Þeir sem koma að skipulagningu mótmælanna í dag hvetja fyrirtæki sem styðja við ólympíuleikana, svo sem McDonald's, Coca-Cola, Samsung og Visa til þess að tala gegn nýju lögunum í Rússlandi. En samkvæmt lögunum er saknæmt að veita ungmennum yngri en átján ára upplýsingar um samkynhneigð. Talið er að með þessu sé útilokað að berjast opinberlega fyrir mannréttindum hinsegin fólks í landinu.

Bandaríkin senda samkynhneigða sem fulltrúa landsins í skrúðgöngur

Marie Campbell, framkvæmdastjóri jafnréttissamtakanna All Out, segir í samtali við BBC að nýju lögin gangi gegn ólympíuandanum og þeim grundvallarreglum sem leikarnir byggja á. Hún segir að allur heimurinn vilji fagna ólympíugildunum en ekki sé hægt að hunsa staðreyndir um hvað sé að gerast í Rússlandi þar sem nýju lögin koma í veg fyrir að milljónir íbúa landsins geti notið þessara gilda sem ólympíuleikarnir standa fyrir.

Bach hefur beðið leiðtoga heimsins um að halda stjórnmálum fyrir utan ólympíuleikanna en í ræðu sem hann flutti í gær, að Pútín viðstöddum, nefndi hann ekki nafn Baracks Obama forseta Bandaríkjanna, en telja fréttaskýrendur að hann hafi einkum beint orðum sínum til hans. Meðal annars vegna þess að Obama ákvað að sniðganga leikana og eins hefur Hvíta húsið tilnefnt þrjá íþróttamenn, sem ekki fara leynt með að þeir séu samkynhneigðir, til þess að taka þátt í skrúðgöngunni fyrir hönd Bandaríkjanna bæði á opnunar- og lokahátíðinni.

Hótelin ekki tilbúin

En það eru ekki bara mannréttindi eða mannréttindabrot sem þeir Pútín og Bach þurfa að svara fyrir í tengslum við ólympíuleikana því margir óttast að svæðið verði ekki tilbúið þegar leikarnir hefjast á föstudag. Hundruð gesta sem hafa komið til Sotsjí í vikunni hafa orðið fyrir því að hótelin sem þeir eiga að gista á eru ekki tilbúin, samkvæmt frétt BBC og Washington Post.

Að sögn fréttaritara BBC í Sotsjí, Daniel Sandford eru svæðin þar sem keppt er tilbúin en allt í kringum þau séu hálfbyggðar byggingar. Því sé hætta á að skrautsýningin sem Pútín hafði vonast eftir verði ekkert annað en höfuðverkur í huga þeirra sem koma að skipulagningu ólympíuleikanna.

Bach blés á þessar áhyggjur íþróttamanna og fjölmiðlafólks í viðtali við RIA Novosti fréttastofuna um að hótelherbergin yrðu ekki tilbúin og segir að einungis eigi eftir að ljúka við 3% herbergjanna. Þeir sem ættu þau herbergi bókuð fengju aðra gistingu í staðinn og að búið yrði að  bjarga öðrum vandamálum þegar kæmi að leikunum.

Eins hafa þátttökuríki áhyggjur af öryggismálum og hafa bæði Bandaríkin og Austurríki lýst yfir áhyggjum af mögulegri hryðjuverkaárás á meðan leikunum stendur.

Ekki 51 milljarður dala heldur 6,4 milljarðar dala

Kostnaður vegna ólympíuleikanna í Sotsjí hefur einnig verið ræddur en Bach gaf lítið fyrir það á fundi með blaðamönnum í gær. Hann segir kostnaðinn nú ekki meiri en á fyrri ólympíuleikum.

„Að breyta frekar gamaldags sumarleyfisstað í nútíma heilsárs íþrótta- og ferðamiðstöð  - þið getið séð þessar breytingar - er ekki kostnaður vegna ólympíuleikanna. Þetta er umbreyting á heilu héraði og leikarnir virka sem hvati á slíkar framkvæmdir,“ segir Bach, samkvæmt frétt CNN.

CNN rifjar upp upplýsingar varðandi kostnað við leikana. Aðstoðarforsætisráðherra Rússlands, Dmitrí Kozak, sagði í fyrra að heildarkostnaðurinn yrði 51 milljarður Bandaríkjadala. Það gerir leikana þá dýrustu í sögunni.

En nú hafa rússnesk yfirvöld breytt fjárhæðinni og segja að leikarnir kosti 6,4 milljarða dala. Ástæðan fyrir því að fjárhæðin lækkaði svo mikið er sú að núna er allur kostnaður við samgöngur, orku og holræsakerfi ekki inni í kostnaðinum við leikana.

Sá tvöfalt á klósettinu

Þrátt fyrir fögur fyrirheit eru ekki allir jafn ánægðir með þá aðstöðu sem boðið er upp á í Sotsjí. Til að mynda klósett án skilrúma á milli. Umræðan um salernisaðstöðuna fór af stað þegar fréttamaður BBC í Moskvu Steve Rosenberg, ritaði á Twitter að hann sæi tvöfalt á karlaklósettinu í Biathlon miðstöðinni í Sotsjí og birti mynd af tveimur klósettum hlið við hlið.

Hér er hægt að skoða ótrúlegar myndir frá Sotsjí

Annað sem hefur verið fjallað um í fjölmiðlum er fjöldi villihunda á götum borgarinnar. Hefur meindýraeyðir verið ráðinn í vinnu til þess að drepa þá en að sögn yfirmanns meindýrafyrirtækisins eru hundarnir í þúsunda tali og hafa þeir meðal annars ráðist á börn og bitið þau.

Dýraverndunarsamtök brugðist illa við fréttum af fyrirhuguðu drápi villihundana og hafa borgaryfirvöld nú samþykkt að koma hundunum fyrir í skýlum fram yfir leikana.

Í gær færðu fulltrúar Samtakanna 78 Illuga Gunnarssyni gjafir í tilefni farar hans til Rússlands en samkvæmt samtökunum er mikilvægt að Íslendingar láti ekki tækifærið fram hjá sér fara til að halda á lofti merkjum réttinda hinsegin fólks. 

„Í Rússlandi mælist lagaleg og félagsleg staða þess þjóðfélagshóps afar veik og hefur snarversnað eftir að Vladimír Pútín tók aftur við forsetaembættinu árið 2012. Löggjöf sem sett var 2013 hefur þau áhrif að upplýsingamiðlun um hinsegin málefni er bönnuð en hún er grundvallaratriði í baráttu hinsegin fólks. Setning laganna hefur hrint af stað öldu hatursglæpa gegn hinsegin fólki í Rússlandi.

 Fjöldi stjórnmálaleiðtoga í heiminum, m.a. frá Bandaríkjunum, Þýskalandi og Frakklandi, hefur ákveðið að fara ekki til Sotsjí. Þetta er augljós tjáning afstöðu gegn mannréttindabrotum í Rússlandi. Samtökin ´78 ályktuðu í janúar um að íslenskt stjórnmálafólk ætti með sama hætti að láta sína afstöðu í ljós. Nú er komið á daginn að íslenskt stjórnmálafólk, bæði ráðherrar og forseti, velja að mæta á Ólympíuleikana og Ólympíumót fatlaðra. Samtökin´78 gera því þá kröfu að þau noti tækifærið til að senda markviss skilaboð um réttindi hinsegin fólks. Annað væri meðvirkni með mannréttindabrotum,“ segir í tilkynningu sem Samtökin '78 sendu frá sér í gær.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert